Fræðsludeild

Markmið fræðsludeildar Borgarleikhússins er að opna leikhúsið fyrir ungum jafnt sem öldnum og vekja þannig áhuga nýrra kynslóða og nýrra áhorfenda. Leikskóla- og grunnskólanemendum er meðal annars boðið í heimsóknir í leikhúsið, skoðunarferðir og starfskynningar eru haldnar samkvæmt óskum, auk þess sem margvíslegt efni tengt sýningum er gefið út og gert aðgengilegt á heimasíðu Borgarleikhússins.

GRUNNSKÓLANEMENDUR SKOÐA LEIKHÚSIÐ

Undanfarin fjögur leikár hefur Borgarleikhúsið boðið öllum nemendum 5. bekkjar í grunnskólum Reykjavíkur að verja skemmtilegum morgni í Borgarleikhúsinu, þar sem tækifæri gefst til að skoða leikhúsið og sjá leiksýningu. Sú sýning sem boðið verður upp á í ár er Blái hnötturinn, en hún vakti mikla athygli á síðasta leikári og hlaut fern Grímuverðlaun, meðal annars sem barnasýning ársins 2016. 

rvkdtr_3x3

RVKDTR – THE SHOW

Borgarleikhúsið og Reykjavíkurdætur stefna á að bjóða öllum nemendum 10. bekkjar í grunnskólum Reykjavíkur að sjá rappleikinn RVKDTR – The Show, sem frumsýndur var á Litla sviðinu á síðasta leikári. Í verkinu sem hópurinn samdi sjálfur tengjast lög sveitarinnar saman með leikþáttum og uppákomum, þannig að úr verður hárbeitt samblanda af leikhúsi, tónlist og rappi. Sýningin var frumsýnd á leikárinu 2016-2017 og tekur á málefnum sem Reykjavíkurdætur og Borgarleikhúsið telja mikilvæg fyrir ungt fólk í dag.

NÁMSKEIÐ Í SAMSTARFI VIÐ ENDURMENNTUN

Í tengslum við uppsetninguna á Himnaríki og helvíti og Rocky Horror efnir Endurmenntun Háskóla Íslands til námskeiða í samstarfi við Borgarleikhúsið. Rýnt verður í verkin, baksvið þeirra og hugarheim, auk þess sem þátttakendum verður boðið á æfingar þar sem þeim gefst tækifæri til að hitta aðstandendur sýninganna. Skráning er hjá Endurmenntun í síma 525-4444 og á www.endurmenntun.is 

LEIKSKÓLASÝNING ÁRSINS

Öllum elstu börnum í leikskólum Reykjavíkur verður boðið að kynnast leikhúsinu og töfrum þess með bráðfjörugri sýningu sem er samin sérstaklega fyrir þau undir yfirskriftinni Leikskólasýning ársins. Síðastliðin fjögur ár hefur fræðsludeild Borgarleikhússins sett saman stutta sýningu sem sýnir börnum hvað hægt er að gera í leikhúsi og kynnir fyrir þeim óendanlega möguleika þess. Sýningarnar eru unnar af leikurum og starfsfólki úr öllum deildum leikhússins, undir leiðsögn fræðslustjóra Borgarleikhússins.

ENDURMENNTUN HÍ

Endurmenntun HÍ er með námskeið í tengslum við leiksýninguna. Snemmskráningarfrestur á námskeiðið er til 18. nóvember. Í námskeiðsgjaldi er innifalinn miði á lokaæfingu, 10. janúar 2018.
Sjá nánari upplýsingar hér

FRÆÐSLUDEILDIN ER FYRIR ÞIG OG ALLA HINA

Auk skipulagðrar dagskrár kappkostar fræðsludeildin að sinna eftir fremsta megni öllum þeim sem áhuga hafa á að fræðast meira um starfsemi leikhússins. Fræðslustjóri leikhússins, Hlynur Páll Pálsson, svarar öllum spurningum með glöðu geði! Hann er með netfangið hlynurpall@borgarleikhus.is

leitin að solinni