Fræðsludeild

Markmið fræðsludeildar Borgarleikhússins er að opna leikhúsið fyrir ungum jafnt sem öldnum og vekja þannig áhuga nýrra kynslóða og nýrra áhorfenda. Leikskóla- og grunnskólanemendum er meðal annars boðið í ævintýralegar heimsóknir í leikhúsið, skoðunarferðir og starfskynningar eru haldnar samkvæmt óskum, auk þess sem margvíslegt efni tengt sýningum er gefið út og gert aðgengilegt á heimasíðu Borgarleikhússins.

GRUNNSKÓLANEMENDUR SKOÐA LEIKHÚSIÐ

Síðustu þrjú leikár hefur Borgarleikhúsið boðið öllum nemendum  5. bekkjar í grunnskólum Reykjavíkur að verja skemmtilegum morgni í Borgarleikhúsinu, þar sem tækifæri gefst til að skoða leikhúsið  og sjá leiksýningu. Sú sýning sem boðið verður upp á í haust nefnist Hamlet litli, en hún var samin sérstaklega fyrir þetta tilefni og hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins 2014.

UPPISTAND UM ÞAÐ SEM ALLIR ERU AÐ SPÁ Í

Vegna fjölda áskorana hafa Pörupiltar og Borgarleikhúsið ákveðið að endurtaka leikinn í ár og halda áfram að fræða 10. bekkinga borgarinnar um það sem allir eru að spá í, en engin þorir að tala um ... Þessar heimsóknir hafa heppnast mjög vel á undanförnum leikárum og mælst vel fyrir hjá 10. bekkingum í Reykjavík sem boðið er að sjá uppistandið Kynfræðsla Pörupilta, en Pörupiltar hafa troðið upp víða um heim á síðustu árum og velt fyrir sér samskiptum kynjanna við ósvikna kátínu áhorfenda.

LEIKSKÓLASÝNING ÁRSINS

Öllum elstu börnum í leikskólum Reykjavíkur verður boðið að kynnast leikhúsinu og töfrum þess með bráðfjörugri sýningu sem er samin sérstaklega fyrir þau undir yfirskriftinni Leikskólasýning ársins. Undanfarin þrjú ár hafa vel á sjötta þúsund leikskólabarna komið í heimsókn og kynnst undraveröld leikhússins á fjörugan og fræðandi hátt. Markmið heimsóknarinnar er sýna börnunum hvað hægt er
að gera í leikhúsi og að kynna fyrir þeim óendanlega möguleika þess. Sýningarnar eru unnar af starfsfólki úr öllum deildum leikhússins, undir leiðsögn fræðslustjóra Borgarleikhússins. 

 LEIKLISTARSKÓLI BORGARLEIKHÚSSINS

Í kjölfarið á frábærum viðtökum á námskeiðahaldi hefur verið ákveðið að setja á fót tilraunaverkefni og stofna leiklistarskóla á grunnskólastigi. Haustið 2016 mun Borgarleikhúsið því auglýsa eftir þátttakendum á aldrinum 8-12 ára, sem hafa áhuga á leiklist og vilja öðlast frekari reynslu og getu á leiksviði. Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða verður þátttaka takmörkuð við 24 nemendur, sem skiptast í tvo hópa eftir aldri. Skólastjóri Leiklistarskóla Borgarleikhússins verður Vigdís Másdóttir, en hún er menntuð leikkona og leiklistarkennari.  Nánari upplýsingar má sjá hér 


NÁMSKEIÐ Í SAMSTARFI VIÐ ENDURMENNTUN

Í tengslum við uppsetningarnar á Sölku Völku og Elly efnir Endurmenntun Háskóla Íslands til námskeiða í samstarfi við Borgarleikhúsið. Rýnt verður í verkið, baksvið þess og hugarheim, auk þess sem þátttakendum verður boðið á æfingar þar sem þeim gefst tækifæri til að hitta aðstandendur sýningarinnar. Skráning er hjá Endurmenntun  í síma 525 4444 og á www.endurmenntun.is.

FRÆÐSLUDEILDIN ER FYRIR ÞIG OG ALLA HINA

Auk skipulagðrar dagskrár kappkostar fræðsludeildin að sinna eftir fremsta megni öllum þeim sem áhuga hafa á að fræðast meira um starfsemi leikhússins. Fræðslustjóri leikhússins, Hlynur Páll Pálsson, svarar öllum spurningum með glöðu geði! Hann er með netfangið hlynurpall@borgarleikhus.is. 

 

Fylgstu með!

Vertu með puttann á púlsinum og fylgstu með Borgarleikhúsinu á FacebookTwitterYouTube og Instagram.