Laugardagur 18. Mars 2017

Frumsýning á Elly á Nýja sviðinu í kvöld


Laugardaginn 18. mars verður frumsýnt nýtt íslenskt verk um Elly Vilhjálms í Borgarleikhúsinu í samstarfi við Vesturport. Elly var óumdeilanlega ein dáðasta söngkona landsins á sínum ferli og má vel færa rök fyrir því að hún sé það enn í dag. Lög hennar njóta enn vinsælda á öldum ljósvakans og ævisögu hennar frá árinu 2012, skrifuð af Margréti Blöndal, var gríðarlega vel tekið.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir fer með hlutverk Ellyjar í sýningunni. Björgvin Franz Gíslason snýr aftur á svið eftir nokkurra ára fjarveru frá leikhúsinu og fer með hlutverk Ragga Bjarna, Kristjáns Kristjánssonar (KK), Steins Steinarr, Vilhjálms Vilhjálmssonar og fleiri. Hjörtur Jóhann Jónsson fer með hlutverk Svavars Gestssonar, Eyþórs Þorlákssonar og fleiri. Katla Margrét Þorgeirsdóttir fer með hlutverk Frú Sigríðar Jacobsen, Móður Ellyjar, Maríu vinkonu hennar, Sigrúnar Jónsdóttur og fleiri. Þá fer Björn Stefánsson með hlutverk Ævars R. Kvaran, Jóns Páls Bjarnasonar og fleiri.

Nú hafa Ólafur Egill Egilsson og Gísli Örn Garðarsson útfært sögu Ellyjar fyrir leiksvið. Bók Margrétar Blöndal var notuð sem heimild fyrir verkið auk fjölmargra frásagna frá vinum og kunningjum Ellyjar. Í verkinu er farið yfir ævi og störf hennar, bæði sem opinber persóna og söngkonu og gleði og sorgir hennar í einkalífinu.