Laugardagur 15. Júlí 2017

Fyrsta frumsýning leikársins verður 15. september


Föstudaginn 15. september, eftir slétta tvo mánuði, verður fyrsta frumsýning nýs leikárs í Borgarleikhúsinu þegar verkið fræga, 1984, verður sett upp á Nýja sviði leikhússins. Um er að ræða verk byggt á sígildri skáldsögu George Orwell og er af mörgum talin ein sú merkasta síðari tíma ekki síst vegna þess hversu margt í þessari 70 ára gömlu framtíðarsýn á vel við í dag.

Aðalpersóna sögunnar vinnur fyrir Flokkinn við að breyta upplýsingum og staðreyndum í blöðum og kennslubókum með hliðstæðum staðreyndum eftir því sem kemur vel út fyrir Flokkinn, dregur úr gagnrýni og sjálfstæðri hugsun almennings. Málin vandast hins vegar þegar hann fer að skrifa leynilega dagbók með réttum og óbreyttum upplýsingum.

Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir verkinu og leikarar eru þau Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Jóhann Sigurðarson, Hannes Óli Ágústsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson og Erlen Isabella Einarsdóttir.