Fimmtudagur 11. Janúar 2018

Himnaríki og helvíti frumsýnt í kvöld


Fimmtudaginn 11. janúar, á 121. afmælisdegi Leikfélags Reykjvíkur, verður leikritið Himnaríki og helvíti frumsýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins. Um er að ræða nýtt íslenskt leikrit byggt á þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, bókunum Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins – einu umtalaðasta stórvirki íslenskra bókmennta á síðari tímum.

Leikstjóri er Egill Heiðar Anton Pálsson, um leikgerð sá Bjarni Jónsson, Egill Ingibergsson sá um leikmynd, Helga I. Stefánsdóttir sá um búninga, Hjálmar H. Ragnarsson um tónlist og Þórarinn Blöndal sá um teikningar.

Himnaríki og helvíti er leiksýning sem fjallar um glímu mannsins við öfl náttúrunnar, hið ytra sem hið innra. Í öndvegi verksins er Strákurinn; persóna sem trúir því að með orðum megi breyta heiminum og vekja látna aftur til lífsins. Hér er tekið á örlögum fólks sem er nátengt hafi, fjöllum og veðri, en örlög þeirra ráðast einnig í Plássinu þar sem mannlífi allra tíma á Íslandi er lýst og brugðið undir sjóngler og bæði konur og karlar takast á í hörkulegri lífsbaráttunni. Eitt eiga allar manneskjurnar sameiginlegt: Þær eru í leit að ástinni, en reynast misvel undirbúnar fyrir ferðalagið á þeim hála ís.

Bækur Jóns Kalmans Stefánssonar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og vakið athygli fyrir skarpa afhjúpun á mannlegu eðli. Jón hefur verið margsinnis tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlanda og Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem hann hlaut árið 2015. Hann hefur fengið fjölda annarra verðlauna innlend sem erlend og hefur í seinni tíð jafnvel verið orðaður við sjálf Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Bjarni Jónsson hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Grímuverðlaunin, Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin auk þess sem hann hefur verið tilnefndur í tvígang til Norrænu leikskáldaverðlaunanna.

Leikarar eru Bergur Þór Ingólfsson, Birna Rún Eiríksdóttir, Björn Stefánsson, Hannes Óli Ágústsson, Haraldur Ari Stefánsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Himnaríki og helvíti 2