Föstudagur 18. Nóvember 2016

Laxness og Garbo


Halldór Kiljan Laxness ætlaði sér að verða frægur í Hollywood. Hann hafði sem ungur maður brennandi áhuga á kvikmyndum og skrifaði árið 1927 vini sínum Erlendi í Unuhúsi:  

„Ég fann hjá mér alveg óstjórnlega löngum til að fara til Hollywood og semja 10 kvikmyndir. Ég er sannfærður um að ekkert liggur fyrir mér eins og kvikmyndin." Allir þekkja söguna um Sölku Völku sem hefur orðið ein ástsælasta saga Halldórs og sú sem ruddi braut hans til alþjóðlegrar hylli. En færri vita kannski að frumgerðin að skáldsögunni var ekki saga heldur drög að kvikmyndahandriti. Og með þau drög, sem hann nefndi Salka Valka or A Woman in Pants, hélt Halldór Laxness ungur á vit ævintýranna vestan hafs. Hann segir m.a. um dvöl sína: „Filmlífið hér er stórkostlega interesting og hef ég bestu vonir um að komast inn í það... Lífið hér í Hollywood er alveg drepskemmtilegt á kvöldin...." Um tíma leit út fyrir að frægðardraumar Halldórs í Hollywood myndu rætast því hann var aðeins hársbreidd frá því að landa samningi við M.-G.-M. Studios. : „Þegar þessar línur eru ritaðar, er alt útlit fyrir að ég leggi af stað til Íslands með fjórar kvikmyndamanneskjur í eftirdragi: Karlstjörnu...kvenstjörnu, leikstjóra og camera-man. Mér hefur sem sagt tekist að gera Hollywood interesseraða... Kvenstjarnan sem Halldór talar hér um var engin önnur en Greta Garbo og vissulega hefði verið áhugavert að sjá hana í aðalhlutverki í amerískri kvikmynd um Sölku Völku. „O, það er spennandi, skal ég segja þér. Ef það kemst í gegn þá er ég „made"."  En eitthvað dróst á langinn að kvikmyndafólkið kæmist til Íslands - þetta var um sumar og nauðsynlegt að myndin yrði tekin upp meðan dagur var sem lengstur. Og fyrr en varði var hið stutta íslenska sumar liðið. Kvikmyndafyrirtækið vildi ekki gera samning við Halldór fram í tímann og ráðagerðirnar döguðu uppi. Í bréf Halldórs kemur annar tónn, og segist hann nú orðinn dauðþreyttur á Ameríku og kvikmyndaiðnaðinum. Hann snýr sér aftur að prósa- og greinaskrifum og leggur drög að Sjálfstæðu fólki meðan hann er enn í Los Angeles. Það er svo ekki fyrr en nokkrum árum síðar sem hann sendir frá sér skáldsöguna Sölku Völku. Það má því kannski segja að samningsrof bandaríska kvikmyndafyrirtækisins við Halldór hafi orðið íslenskum bókmenntum til happs. 

Hver veit hvað skáldið hefði gert hefði Salka Valka verið kvikmynduð og hann raunverulega orðið „made" í Hollywood eins og hann talaði um. Hefðum við þá ekki eignast framúrskarandi kvikmyndahandritshöfund í Halldóri Kiljan Laxness? Kannski getum við þakkað frægð Gretu Garbo og annríki hennar þetta örlagaríka sumar árið 1928 að hinn ungi höfundur fór aðra leið - sem bjargaði íslenskum bókmenntum frá því að verða af fjölmörgum af sínum helstu öndvegisverkum.