Miðvikudagur 17. Maí 2017

Leitin að sólinni - Leikskólasýning ársins


Dagana 15. – 18. maí 2017 er öllum elstu nemendum leikskóla Reykjavíkurborgar, ásamt kennurum þeirra, boðið upp á kynningu á töfrum leikhússins í Borgarleikhúsinu. Hugmyndin að halda sýningar sem þessa kviknaði fyrir fimm árum og í kjölfarið var sett á fót sérstök fræðsludeild. Borgarleikhúsið tók ákvörðun um að bjóða öllum fimm ára börnum og öllum 10 ára börnum í leikhús til að allir krakkar í Reykjavík hafi farið að minnsta kosti tvisvar í leikhús áður en grunnskólagöngu lýkur. 

Verkefnið hefur gengið með eindæmum vel. Nú styttist í að fyrsti leikskólaárgangurinn, sem kom í heimsókn fyrir fjórum árum, komi aftur og þá sem hópur í 5. bekk. ,,Okkur finnst mikilvægt að breyta ekki hvaða árgangi er boðið, til að halda samfellu. Þetta er fjórða árið í röð sem leikhúsið býður leikskólabörnum á sýningu og er alltaf sett upp ný sýning á hverju ári sem er sérstaklega búin til fyrir krakkana,” segir Hlynur Páll Pálsson, fræðslustjóri Borgarleikhússins. 

Í ár eru það Lalli töframaður, Villi vísindamaður og Vala Kristín leikkona sem leika í sýningunni. ,,Við höfum gantast með það í Borgarleikhúsinu að sýningin heiti Leikskólasýning ársins – enda er búin til ný leikskólasýning ár hvert,” segir Hlynur Páll. Undirtitill leikskólasýningarinnar í ár er “Leitin að sólinni”. ,,Lalli töframaður fær Villa vísindamann og Völu leikkonu til að hjálpa sér að leita að sólinni, sem hefur varla sést á lofti síðan Sumardaginn fyrsta. Vala og Lalli eru sannfærð um að sólin sé týnd inni í leikhúsinu, en Villi er aftur á móti mjög efins um að sólin geti týnst inni í leikhúsi,” segir fræðslu- og leikstjórinn að lokum.