Íslensk leikritun

Rík áhersla er lögð á höfundastarf, þróun handrita frá fyrstu hugmynd til fullbúinna verka og leitast er við að hvetja og styðja íslensk leikskáld á öllum aldri. Við viljum gera innlenda leikritun framúrskarandi og samkeppnishæfa við það besta sem gerist í erlendri samtímaleikritun.

Leikskáld Borgarleikhússins

Borgarleikhúsið ræður á hverju ári nýtt leikskáld sem verður hluti af starfsmannahópi leikhússins. Á síðasta leikári var Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld hússins og verk hans Auglýsing ársins var frumsýnt síðastliðinn vetur. Verkið var tilnefnt sem leikrit ársins á Grímuverðlaununum 2016. Salka Guðmundsdóttir er leikskáld Borgarleikhússins leikárið 2016-2017. Fyrsta verkefni hennar er ný leikgerð að Sölku Völku í samstarfi við leikstjórann Yönu Ross. Salka mun því næst skrifa nýtt barnaleikrit fyrir Borgarleikhúsið sem tekið verður til sýninga á leikárinu 2017-2018.

Ný íslensk verk

Á leikárinu 2016-2017 verða frumsýnd sex ný íslensk leikverk: Sending eftir Bjarna Jónsson, Elly eftir Ólaf Egil Egilsson og Gísla Örn Garðarsson, Hannes og Smári eftir Halldóru Geirharðsdóttur, Jón Pál Eyjólfsson og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur og ný leikgerð að Sölku Völku Halldórs Laxness eftir Yönu Ross og Sölku Guðmundsdóttur. Þá verða samstarfsverkefni Borgarleikhússins einnig ný íslensk leikrit: Heimildaverkið Hún pabbi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur og Köru Hergils í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning. Og Extravaganza eftir Sölku Guðmundsdóttur í samstarfi við Soðið svið. Einnig verða frumsýnd tvö ný barnaleikrit: Jólaflækja eftir Berg Þór Ingólfsson og Vísindasýning Villa eftir Vilhelm Anton Jónsson og Vigni Rafn Valþórsson.

Bókaútgáfa Borgarleikhússins og Þorvaldar Kristinssonar

Borgarleikhúsið hefur hafið útgáfu á íslenskum leikritum sem frumsýnd eru í leikhúsinu í samstarfi við Þorvald Kristinsson. Á síðasta leikári voru gefin út leikritin Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur og Bláskjár eftir Tyrfing Tyrfingsson. Bókaútgáfa Borgarleikhússins er mikilvægur þáttur í þeirri stefnu leikhússins að efla íslenska leikritun. Með þessu framtaki vonast leikhúsið til að styrkja stöðu leikritunar hér á landi með því að búa snjöllum leikritum varanlegan búning á bók og traustan sess í leiklistarsögunni. Vonir standa til að gefa út fjögur til fimm verk á hverju leikári en Þorvaldur Kristinsson bókmenntafræðingur annast útgáfuna fyrir hönd leikhússins. Listakonan Kristín Gunnarsdóttir hannar kápu og annast umbrot.

Bækurnar tvær, Hystory og Bláskjár eru til sölu í bókaverslunum Eymundsson og í miðasölu Borgarleikhússins. Verð hvorrar bókar er 2.900 kr.

Leikritaklúbbur Borgarleikhússins

Leikritaklúbbur Borgarleikhússins hefur göngu sína! Áskrifendur fá nýútgefin leikrit Borgarleikhússins send heim á góðu verði. Auk þess bjóðum við öllum meðlimum klúbbsins veglegan afslátt af fyrstu heimsendingu á fyrstu verkum leikritaraðarinnar, Hystory og Bláskjá. Næstu verk sem gefin verða út eru Auglýsing ársins eftir Tyrfing Tyrfingsson, Flóð eftir Hrafnhildi Hagalín og Björn Thors og Sending eftir Bjarna Jónsson. 

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vef Borgarleikhússins www.borgarleikhus.is eða í miðasölu. Vertu með í Leikritaklúbbi Borgarleikhússins!