Íslensk leikritun

Íslensk leikritun í Borgarleikhúsinu 

Við leggjum ríka áherslu á höfundarstarf, þróun handrita frá fyrstu hugmynd til fullbúinna verka og leitast er við að hvetja og styðja íslensk leikskáld á öllum aldri. Við höfum að markmiði að efla íslenska leikritun með öllum tiltækum ráðum og gera hana framúrskarandi og samkeppnishæfa við erlenda samtímaleikritun.

bjorn leo brynjarsson

Leikskáld Borgarleikhússins

Borgarleikhúsið ræður á hverju ári nýtt leikskáld sem verður hluti af starfsmannahópi leikhússins. Á síðasta leikári var Salka Guðmundsdóttir leikskáld hússins og vann m.a. leikgerð að Sölku Völku í samstarfi við leikstjórann Yönu Ross. Þá vann hún að barnaverkinu Skúmaskoti sem frumsýnt verður á Litla sviðinu í janúar. Nýtt leikskáld Borgarleikhússins er Björn Leó Brynjarsson.

kartofluaeturnar vefur

Ný íslensk verk 

Á leikárinu 2017–18 verða frumsýnd fjögur ný íslensk leikverk: Kartöfluæturnar eftir Tyrfing Tyrfingsson, Skúmaskot eftir Sölku Guðmundsdóttur, Himnaríki og helvíti, leikgerð eftir Bjarna Jónsson upp úr þríleik Jóns Kalman og Guð blessi Ísland eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarson. Þá verða samstarfsverkefni Borgarleikhússins einnig ný íslensk leikrit: Natan eftir leikhópinn Aldrei óstelandi og Lóaboratoríum eftir Lóu Hjálmtýsdóttur í samstarfi við Sokkabandið. 

Samstarf og samvinnuverkefni

Borgarleikhúsið efnir til samstarfs við Listahátíð í Reykjavík og Félag leikskálda og handritshöfunda á leikárinu um að panta og þróa ný íslensk örverk eftir valinkunna höfunda undir yfirskriftinni  „Blesugróf“. Áætlað er að sýna verkin á mismunandi stöðum í Blesugróf í Reykjavík á Listahátíð vorið 2018. Um er að ræða svokallaðan „site-specific“ viðburð þar sem farið verður í ferðalag með áhorfendur um Blesugróf sem á sér heillandi og merka sögu og er nokkurs konar falið leyndarmál í borginni.

Borgarleikhúsið verður einnig í samstarfi við Listaháskóla Íslands á leikárinu varðandi ritlistarnám og þróun verka þeirra nemenda sem velja sér leikritun sem sérgrein og munu þeir njóta leiðsagnar handritadramatúrgs hússins. Útskriftarverk þeirra verða leiklesin í Borgarleikhúsinu.

Þá tekur Borgarleikhúsið þátt í samvinnuverkefni nokkurra Evrópulanda “Fabulamundi Playwrighting Europe” sem miðar að því að kynna með markvissum og afgerandi hætti valin leikskáld samstarfslandanna með þýðingum, vinnustofum, uppsetningum og ýmis konar samstarfi milli aðildarlandanna. 


utgafuteiti

Bókaútgáfa Borgarleikhússins og Þorvaldar Kristinssonar

Borgarleikhúsið hefur undanfarin tvö ár gefið út nokkur leikrit sem frumsýnd hafa verið í leikhúsinu. Bókaútgáfa Borgarleikhússins er mikilvægur þáttur í þeirri stefnu leikhússins að efla íslenska leikritun. Þorvaldur Kristinsson bókmenntafræðingur og útgefandi annast útgáfuna. Listakonan Kristín Gunnarsdóttir hannar kápu og annast umbrot. Gefin hafa verið út verkin Bláskjár og Auglýsing ársins e. Tyrfing Tyrfingsson, Hystory e. Kristínu Eiríksdóttur, Sending e. Bjarna Jónsson og Flóð e. Hrafnhildi Hagalín og Björn Thors. Bækurnar eru til sölu í bókaverslunum Eymundsson og í miðasölu Borgarleikhússins.

Leikritaklúbbur Borgarleikhússins 

Áskrifendur í leikritaklúbbnum fá bækurnar sendar heim fljótlega eftir að þær koma út. Verð á hverju leikriti er 2900 kr. en fyrir klúbbfélaga er sendingargjald innifalið. Við fögnum nýjum áskrifendum og veitum þeim 30% afslátt af fyrstu bókasendingunni. Auk þess bjóðum við öllum nýjum meðlimum veglegan afslátt af áður útgefnum verkum leikritaraðarinnar.

Ef þú hefur áhuga á að gerast meðlimur í leikritaklúbbi Borgarleikhússins, sendu okkur þá línu á netfangið leikritaklubbur@borgarleikhus.is. Við hlökkum til að heyra frá þér.