Starfsemi

Starfsemi í Borgarleikhúsinu - Fjármál, áhorfendur

Framlag Reykjavíkurborgar á sl. leikári nemur um 621 mkr. Framlagið er greitt með 12 um það bil jöfnum greiðslum.  Að öðru leyti skal LR afla eigin tekna með sölu aðgöngumiða, veitingasölu, útleigu og með öflun styrktaraðila.

Velta leikfélagsins sl. leikári var um 1,6 milljarður og rekstrarframlag Reykjavíkurborgar var um 39% og sjálfsaflafé því 61%. Tekjur af miðasölu voru um 44% og mismunurinn 13% eru tekjur af útleigu, veitingasölu, markaðssamstarf o.fl.  Langstærsti gjaldliðurinn í rekstri leikhússins er launagreiðslur, um það bil 70% og að jafnaði eru um 130-150 manns á launaskrá en alls voru rúmlega 250 manns á launaskrá árið 2016.

Gestir Borgarleikhússins leikárið  2009/10 voru þeir 218.000, leikárið 2010/11 215.000, leikárið 2011/12 210.000, leikárið 2012/13 205.000, 2013/14 195.000, 2014/15, 220.000, 2015/16, 210.000 og á síðasta leikári voru þeir um 195.000. Á síðasta ári voru kortagestir um ellefu þúsund. Ljóst er því að Borgarleikhúsið nýtur mikilla vinsælda hjá almenningi í landinu.  

 

Skyldur

Leikfélagið á að gangast fyrir öflugri og samfelldri menningarstarfsemi árið um kring í Borgarleikhúsinu, á eigin vegum, í samstarfi við aðra eða með öðrum hætti sem tryggir góða nýtingu hússins.

Leikfélagið skal setja upp fimm leiksýningar á ári hverju hið minnsta og tryggja að minnsta kosti tveimur öðrum leikflokkum afnot af húsnæði Borgarleikhússins til æfinga og sýninga. Auglýsa skal opinberlega eftir umsóknum leikhópa fyrir 1. mars ár hvert.


Verkefnaval

Verkefnaval Borgarleikhússins er fjölbreytt. Grunnurinn liggur í samþykktum félagsins, samningi við Reykjavíkurborg og stefnumótun Borgarleikhússins hverju sinni. Leikhússtjóri stýrir verkefnavali en með virki þátttöku listrænna ráðunauta sem og starfsmanna hússins, gjarnan með verkefnavalsnefnd og reglulegum leiklestrum. Stjórn LR samþykkir verkefnaval leikárs vorið á undan.  

Meginsjónarmiðin í verkefnavali LR eru að verkin séu framúrskarandi, hvert á sinn hátt, innihaldsrík og eigi mikilvægt erindi við samtímann og áhorfendur Borgarleikhússins, - í gamni sem alvöru. Í heild er stefnt að fjölbreyttu og litríku verkefnavali, metnaðarfullu, sterku og ekki síst vönduðu.

Hvert svið hefur sína áferð: Á Stóra sviði er lögð áhersla á stórsýningar, Nýja sviðið er vettvangur áleitnari verkefna og á Litla sviðinu er mikið lagt upp úr nálægð milli leikara og áhorfenda.

Á þessu leikári, 2017/18 verða sautján verkefni á sýningarskránni, auk verka Íslenska dansflokksins. Þar af eru fimm  sýningar frá fyrra leikári, Blái hnötturinn, Elly, Jólaflækja, Brot úr hjónabandi og Úti að aka. Ný samstarfsverkefni vetrarins eru tvö: Natan og Lóaboratoríum.


Stjórnskipulag, stjórn og helstu stjórnendur

Leikfélag Reykjavíkur er sjálfseignarstofnun og byggir á lögum um sjálfseignarstofnanir. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur ber ábyrgð á rekstri Leikfélags Reykjavíkur og Borgarleikhúss en ræður leikhússtjóra sem stýrir leikhúsinu í umboði stjórnar. Stjórnin ræður einnig framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á fjármálum og rekstri leikhússins. 


Hússtjórn

Sérstök stjórn, Hússtjórn Borgarleikhúss, hefur eftirlit með rekstri  og viðhaldi fasteignar Borgarleikhússins og með efndum samnings milli Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur um Borgarleikhús. Hússtjórn er skipuð til fjögurra ára í senn, eftir hverjar borgarstjórnarkosningar. Borgarstjóri tilnefnir þrjá fulltrúa og stjórn leikfélags Reykjavíkur tvo. Framkvæmdastjóri situr einnig fund hússtjórnar.


Rekstur húsnæðis

Reykjavíkurborg er eigandi Borgarleikhúss og sér um viðhald hússins. Umsjónarmaður fasteignarinnar er Ögmundur Þór Jóhannesson.  Eignasjóður Reykjavíkurborgar fer með rekstur og viðhald en Skipulags- og framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar framkvæmir. Unnið er eftir samþykktri langtímaáætlun um viðhald og nýkaup tækja og búnaðar. 


Erlent samstarf

Borgarleikhúsið leggur sig fram um að auka komu framúrskarandi erlendra leikstjóra, leikmyndahönnuða og annarra listamanna og mun leggja sérstaka áherslu á það í framtíðinni. Síðastliðinn vetur komu þau Yana Ross, frá Litháen og leikstýrði Sölku Völku og Michal Korchowiec frá Póllandi gerði leikmyndina. Mávurinn eftir Anton Tsjékhov fór í langferð síðastliðið vor alla leið til Kína þar sem Borgarleikhúsinu var boðið að sýna á leiklistarhátíðinni Macao Cultural Arts Festival (MAF). Sýningar voru tvær og að sjálfsögðu fluttar á íslensku. Þetta var þriðja leikferð sýningarinnar en áður hafði hópurinn sýnt í Póllandi og Finnlandi. Samstarfsverkefni Dramaten, Osynliga teatern í Stokkhólmi og Borgarleikhússins sýndi heimildasýningu sína í Borgarleikhúsinu í apríl. Sýningin hét Aftur á bak og fjallaði um margvíslegar vistarverur hælisleitandans. “Fabulamundi Playwrighting Europe” er samvinnuverkefni nokkurra Evrópulanda sem miðar að því að kynna með markvissum og afgerandi hætti valin leikskáld samstarfslandanna með þýðingum, vinnustofum, uppsetningum og ýmis konar samstarfi milli aðildarlandanna. Verkefnið, sem stýrt er frá Ítalíu, hefur hlotið stóran Evrópustyrk og stendur yfir frá 2017 til ársins 2020. Borgarleikhúsið og Félag leikskálda og handritshöfunda FLH hafa tekið hödnum saman og eru aðilar að verkefninu sem án efa mun efla grósku varðandi íslenska leikritun og koma leikskáldum okkar á framfæri á erlendum vettvangi næstu árin. Meðal landa sem taka þátt í verkefninu eru m.a. Þýskaland, Tékkland, Austurríki, Spánn, Finnland, Ítalía, Belgía og Frakkland. Auk þess má geta stórviðburðar sem var sýningin Fórn. Hún var unnin í samstarfi Borgarleikhússins, Shalala, Listahátíðar í Reykjavík og Wiener Festwochen sem er ein stærsta og virtasta listahátíð í heimi. Sýningin var frumsýnd í apríl sl og hefur ferðast um Evrópu í sumar. Loks má geta samvinnu Borgarleikhússins, Vesturports og þjóðleikhússins í Osló í sviðsetningu leikritsins Fólk, staðir, hlutir sem frumsýnd verður í Osló og í Borgarleikhúsinu í vor.