100 ár frá fæðingu Karls Guðmundssonar
Í dag, 28. ágúst, eru liðin hundrað ár frá fæðingu hins ástsæla leikara og þýðanda, Karls Guðmundssonar. Karl kom fyrst fram á leiksviði í sýningunni Meðan við bíðum hjá Fjalakettinum árið 1948, en hann hélt síðar til í London í leiklistarnám og útskrifaðist frá Royal Academy of Dramatic Arts árið 1952. Karl starfaði nær allan sinn feril hjá Leikfélagi Reykjavíkur.
Fyrsta hlutverk hans hjá Leikfélaginu var Whit í verki John Steinbeck, Mýs og menn (1954) , en síðast kom hann fram hjá LR í Leynimel 13 árið 1994. Á þessu 40 ára tímabili lék Karl hátt í 100 hlutverk og er hann eflaust mörgum minnistæður t.d. sem Kalli í Saumastofunni (1975) eða Maddaman í Evu Lunu (1994). Karl var einnig afkastamikill og merkur þýðandi og eftir hann liggja tugir þýðinga, sumar sem ekki hafa enn komið fyrir augu almennings. Hann þýddi jöfnum höndum sígild og samtímaverk verk í bundnu og lausu máli, af mörgum höfundum má nefna Molière, Aristofanes, T.S. Eliot, Brian Friel og Martin McDonagh, en verk þess síðarnefnda, Fegurðardrottning frá Línakri, var það síðasta sem hann þýddi sérstaklega fyrir Leikfélag Reykjavíkur árið 1999).
Í tilefni aldarminningar Karls Guðmundssonar mun Leikfélag Reykjavíkur standa fyrir dagskrá þann 29. september n.k., þar sem fjallað verður um þennan merka leikara og þýðanda og lesin brot úr þýðingum hans. Nánar auglýst síðar.