Borgarleikhúsið

125 ára afmæli LR

11 jan. 2022

Leikfélag Reykjavíkur er elsta starfandi leikfélag landsins og eitt elsta menningarfélag þjóðarinnar, en í dag, 11. janúar, eru 125 ár liðin frá stofnun þess.


Haustið eftir stofnun hóf Leikfélagið sýningar í Iðnó við Tjörnina, sem var aðsetur félagsins til ársins 1989 þegar það flutti í Borgarleikhúsið.

Félagið var frá upphafi mjög metnaðarfullt og félagarnir tilbúnir að leggja hart að sér til að standa fyrir sjónleikjum af hæsta gæðaflokki. Ólíkt öðrum leikfélögum á landinu lagði Leikfélag Reykjavíkur áherslu á að leikarar fengju greitt kaup fyrir hvert sýningarkvöld, þó ekki væri það nóg til að þeir gætu haft viðurværi af leiklist eingöngu. Fjárhagur Leikfélagsins var oft erfiður en metnaðarfullt starf þess skapaði því fljótlega stöðu sem ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar og má segja að það hafi gegnt hlutverki þjóðleikhúss þar til Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu var vígt 1950.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Í 125 ár hefur Leikfélag Reykjavíkur verið leiðandi afl í leiklistarlífi þjóðarinnar. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.

„Mér er sem ég heyri bresti og brak“

Í tilefni af 125 ára afmæli Leikfélags Reykjavíkur stendur fyrir dyrum að flytja sviðsettan leiklestur á söngleik þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona, Delerium búbónis. Frumgerð verksins var fyrst flutt í útvarpi fyrir jólin 1954, en frumuppfærsla Leikfélagsins var frumsýnd í Iðnó í janúar 1959. Verkið hlaut fádæma vinsældir og lög Jóns Múla við texta Jónasar hafa öðlast sjálfstætt líf og sess meðal þjóðarinnar, s.s. „Söngur jólasveinanna“ (Úti er alltaf að snjóa), „Einu sinni á ágústkvöldi“ og „Ljúflingshóll“.

Delerium búbónis segir frá forstjóranum Ægi Ó. Ægis sem komið hefur sér vel fyrir í viðskiptalífinu með dyggri aðstoð mágs síns, Jafnvægismálaráðherrans. Þegar upp kemur nýr búfjársjúkdómur, Deleríum búbónis, sem grunur leikur á að hafa smitast inn í gám af ávöxtum og jólatrjám sem þeir mágar hafa flutt inn fyrir jól, þá eiga þér félagar engin önnur ráð en að leggja til frestun jólanna. Á meðan er eiginkona forstjórans, Pálína Ægis, að undirbúa sýningu á stórum ballett, þar sem dóttirin Guðrún Ægis dansar að sjálfsögðu aðalhlutverkið. Guðrún er trúlofuð fóstursyni Jafnvægismálaráðherrans, Leifi Róberts, en brestur hefur komið í samband þeirra og hún hefur tekið að renna hýru auga til atómskáldsins Unndórs Andmars. Það er þó meira sem hvílir á forstjóranum því kona hans þráir það heitast að komast fyrir bílnúmerið R-9, því það þykir fínast í betri húsum bæjarins að hafa sem lægst bílnúmer. Vandinn er hins vegar sá að eigandi númersins, Gunnar Hámundarson leigubílstjóri, er ekki til í að láta það. Inn í þetta allt fléttast erkióvinur forstjórans, Einar í Einiberjarunni, að ógleymdri Siggu vinnukonu forstjórahjónanna, ættargóssi Ægis-fjölskyldunnar í marga ættliði.

Jóhann Sigurðarson les hlutverk forstjórans Ægis Ó. Ægis, Sigrún Edda Björnsdóttir fer með hlutverk Pálínu Ægis og Þórunn Arna Kristjánsdóttir er Guðrún dóttir þeirra. Halldór Gylfason fer með hlutverk Jafnvægismálaráðherrans og Sigurður Þór Óskarsson hlutverk Leifs Róberts. Í öðrum hlutverkum eru Þorsteinn Bachmann (Einar í Einiberjarunni), Árni Þór Lárusson (Unndór Andmar), Katla Margrét Þorgeirsdóttir (Sigga vinnukona) og Bergur Þór Ingólfsson (Gunnar Hámundarson), en hann stýrir einnig lestrinum. Hljómsveit undir stjórn Agnars Más Magnússonar leikur undir. Um leikmynd og búninga sér Helga I. Stefánsdóttir.

Til stóð að flytja verkið á afmæli Leikfélagsins, 11. janúar, en það eru fleiri sjúkdómar en delerium búbónis sem setja strik í reikninginn, en eins og segir í verkinu, „við getum jólahaldi frestað fram í mars“, og vegna gildandi sóttvarnartakmarkana hefur flutningi Deleríum búbónis verið frestað þar til betur árar.