Borgarleikhúsið

  • Gosi

Barnamánuður í Borgarleikhúsinu

6 jan. 2021

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að janúar verður barnamánuður í Borgarleikhúsinu, en samkvæmt núgildandi sóttvarnarreglum er hægt að bjóða yngstu áhorfendurna velkomna í leikhúsið. Fyrsta frumsýning ársins verður nú um helgina, en þá stígur sviðslistahópurinn Hin fræga önd á svið með samstarfssýninguna Fuglabjargið!


Fuglabjargið er tónleikhúsverk fyrir börn í leikstjórn Hallveigar Kristínar Eiríksdóttur. Textinn er eftir Birni Jón Sigurðsson, en hann hlaut Grímutilnefningu fyrir leikrit ársins 2020 ásamt leikhópnum CGFC fyrir verkið Kartöflur. Tónlistin í Fuglabjarginu er í höndum Ingibjargar Ýrar Skarphéðinsdóttur sem nýlega var kosin bjartasta von íslensks tónlistarlífs í samtíma- og klassískri tónlist.

Flytjendur í Fuglabjarginu eru Björg Brjánsdóttir, Björk Níelsdóttir, Bryndís Þórsdóttir, Halldór Eldjárn, Ragnar Pétur Jóhannesson, Tumi Árnason og Viktoría Sigurðardóttir. Búningar eru gerðir af Sólveigu Spilliaert, lýsing er í höndum Jóhanns Friðriks Ágústssonar, hljóðhönnuður er Kristinn Gauti Einarsson og leikmynd er eftir Hallveigu Kristínu og Birni Jón. Að auki Ingibjargar Ýrar kemur Ragnheiður Erla Björnsdóttir að tónlist og er hún einnig tónlistarstjóri. Aðstoðarleikstjóri er Marta Ákadóttir.

Lifandi tónlistarflutningur og frumlegir búningar fuglanna eiga eftir að gleðja jafnt unga sem aldna, en við fylgjumst með einu ári í eynni Skrúði þar sem flytjendur bregða sér í allra fugla líki.

Einnig hefjum við sýningar á Gosa að nýju þann 16. janúar! Sýningin var valin barnasýning ársins á Grímunni 2020, en nú mætir Gosi á Stóra sviðið og ríkir því mikil eftirvænting. Ágústa Skúladóttir leikstjóri heldur þar fast um taumana og gaman er að segja frá því að nýr leikari í okkar röðum, Árni Þór Lárusson, mun þreyta frumraun sína á Stóra sviðinu, en hann leysir Harald Ara Stefánsson af tímabundið.

Ekki er allt talið enn, en barnasýningin Stúlkan sem stöðvaði heiminn er í startholunum. Verkið er samstarfsverkefni Borgarleikhússins og 10 fingra, en stefnt er að frumsýningu 30. janúar næstkomandi. Leikhópurinn 10 fingur er leikhúsunnendum að góðu kunnur fyrir magnaðar og margverðlaunaðar sýningar fyrir yngstu kynslóðina.

Einnig er á döfinni leikskólasýning ársins sem er í höndum Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur, með tónlist Rakelar Bjarkar Björnsdóttur, tekur að öllum líkindum lokahnykk æfinga í janúar. Leikarar í leikskólasýningunni eru þær Rakel Björk Björnsdóttir og Rakel Ýr Stefánsdóttir en leikskólasýning ársins er boðssýning fyrir öll leikskólabörn í Reykjavík. Hingað til hafa árlega um 1.700 börn fengið að njóta leikskólasýningarinnar hér í Borgarleikhúsinu.

Að lokum er gaman að segja frá því að Leiklistarskóli Borgarleikhússins hefur hafið starfsemi af fullum krafti og í lok janúar verður verkefnið Krakkar skrifa tekið upp af RÚV á Nýja sviðinu. Í þetta sinn eru það nemendur leiklistarskólans sem leika í verkum krakkanna.

Sem sagt, nóg fyrir börnin í Borgarleikhúsinu!