Borgarleikhúsið

Birgir Sigurðsson - kveðja frá starfsfólki

13 ágú. 2019

Birg­ir Sig­urðsson, rit­höf­und­ur, leik­skáld og heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur lést á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi 9. ág­úst sl. Birgir var á 82. aldursári.

Birg­ir fædd­ist í Reykja­vík 28. ág­úst 1937. Hann lauk kenn­ara­prófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1961. Hann stundaði tón­list­ar­nám við Tón­list­ar­skól­ann í Reykja­vík um árabil áður en hann hélt til Amster­dam til að nema söng. Birg­ir var blaðamaður á Tím­an­um frá 1961-64. Hann starfaði sem kenn­ari og skóla­stjóri við nokkra skóla þar til hann helgaði sig alfarið ritstörf­um. Eft­ir Birgi ligg­ur fjöldi rit­verka; leik­rit, skáld­sög­ur, ljóð, þýðing­ar og fræðirit. Þekkt­asta leik­rit Birg­is er án efa Dag­ur von­ar, sem frum­sýnt var hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó árið 1987 og gefið út á bók sama ár. Leikritið var síðan endurflutt í Borgarleikhúsinu árið 2017 við gríðarlegar vinsældir enda áhrifamikið og vel skrifað og ein glæsilegasta leikhúsklassík sem við eigum. Leikritið var til­nefnt til bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs árið 1989 og hef­ur verið sýnt víða um heim. Fyrsta leik­rit Birgis, Pét­ur og Rúna, vann 1. verðlaun í sam­keppni Leik­fé­lags Reykja­vík­ur árið1972 og vakti mikla at­hygli. Meðal annarra leik­rita hans eru Skáld-Rósa, Sel­ur­inn hef­ur mannsaugu sem frumsýnd voru af Leikfélagi Reykjavíkur. Grasmaðkur, Óska­stjarn­an og Dína­mít voru flutt í Þjóðleikhúsinu. Síðasta leikrit Birgis, Er ekki nóg að elska? var frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins árið 2015.

Birgir var einnig mikilhæfur þýðandi en eftir hann liggja þýðingar á fjöl­mörgum leik­ritum, þeirra á meðal Nóttin er móðir dagsins eftir Lars Norén, Barn í garðinum eftir Edward Albee og einnig Glerbrot eft­ir Arth­ur Miller og Köttur á heitu blikkþaki, eft­ir Tenn­essee Williams. Auk þess þýddi Brigir nokkrar skáldsögur.

Birg­ir gegndi varaformannsstöðu Rit­höf­unda­sam­bands Íslands 1982-1986 og var á þessu ári gerður að heiðursfélaga sambandsins. Hann var for­seti BÍL frá 1985-87 og sat í stjórn Lista­hátíðar og út­hlut­un­ar­nefnd Kvik­mynda­sjóðs.

Starfsfólk Borgarleikhússins þakkar Birgi Sigurðssyni fyrir samveru og mikivægt framlag hans til íslenskrar leiklistar og vottar fjölskyldu hans innilega samúð.