Borgarleikhúsið

Borgarleikhúsið, Kristján Ingimarsson Company og Íslenski dansflokkurinn sameinast í Room 4.1 Live

4 jún. 2020

Borgarleikhúsið í samstarfi við KIC og Íslenska dansflokkinn kynnir hið margrómaða Room 4.1 Live. Mjög takmarkaður sýningarfjöldi, sýnt á Stóra sviðinu í október!

Room 4.1 - Live er meiriháttar upplifun: súrrealískt, fyndið og töfrandi líkamlegt leikhús sem ögrar þyngdaraflinu svo um munar. Áhorfendur stíga inn í hugarheim örvæntingarfulls leikstjóra og fá að upplifa martraðakennda atburðarás og undarlegar persónur í herbergi sem snýst 360 gráður.

Sýningin hlaut nýverið tilnefningu til hinna virtu Reumert verðlaunanna 2020 í flokknum Årets Særpris. Verðlaun sem veitt eru fyrir sannfærandi sýningar sem víkka út mörk leiklistarinnar, - fyrir mikla list með einföldum aðferðum, en með nýjum og framsæknum hugmyndum. Sérstök áhersla er lögð á listræna heild.

Þátttakendur í sýningunni, auk Kristjáns Ingimarssonar sjálfs, eru: Arnar Dan Kristjánsson, Saga Garðarsdóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Björn Stefánsson og Hjörtur Jóhann Jónsson frá Borgarleikhúsinu, Inga Maren Rúnarsdóttir og Þyri Huld Árnadóttir frá Íd og Kajsa Bohlin og Noora Hannula frá KICompany.
Þetta hafið þið aldrei séð áður!