Borgarleikhúsið

Borgarleikhúsið streymir til ykkar

13 mar. 2020

Borgarleikhúsið mun bregðast við samkomubanni á næstu vikum með því að vera með sérstakar útsendingar úr Borgarleikhúsinu og miðla töfrum leikhússins. Efnið verður sambland af brotum úr uppfærslum leikhússins, uppistandi, fyrirlestrum, tónlistaratriðum, dansi, gjörningum og allskonar öðru skemmtilegu sem okkur dettur í hug.

Ætlunin er fyrst og fremst að virkja orku leikhússins og gleðja þjóðina á þessum einkennilegu tímum. Við eigum ótrúlegt hæfileikafólk, sem er tilbúið að deila list sinni og veita innblástur — og við þurfum að sjálfsögðu að koma í veg fyrir almenna menningarsóun á næstu dögum. Við erum öll í þessu saman.

Borgarleikhúsið mun frumsýna Níu líf söngleikinn um Bubba Morthens í kvöld og sýna fram að samkomubanni á mánudag. Að sjálfsögðu verður öllum tilmælum um sóttvarnir fylgt út í ystu æsar og gestir leikhússins hvattir til að sýna fyllstu aðgát á þessum fáu sýningum sem eftir eru. Vilji fólk nýta miða á sýningar helgarinnar síðar, verður komið til móts við það.