Borgarleikhúsið

Brynhildur sæmd riddarakrossi

1 jan. 2018

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikkona í Borgarleikhúsinu, var í dag sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Riddarakrossinn fékk hún fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar. Alls voru 12 manns sæmdir riddarakrossi á Bessastöðum í dag. 

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikkona í Borgarleikhúsinu, var í dag sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Riddarakrossinn fékk hún fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar. Alls voru 12 manns sæmdir riddarakrossi á Bessastöðum í dag. 

Brynhildur lauk námi í leiklist frá Guildhall School of Music and Drama vorið 1998 og lék í kjölfarið sitt fyrsta hlutverk á sviði við Royal National Theatre í London. Hún var fastráðin við Þjóðleikhúsið á árunum 1999 til 2011 en hefur starfað við Borgarleikhúsið síðan og tekið þátt í fjölda verkefna.

Hlutverk hennar á leiksviði eru komin yfir þriðja tuginn og hefur hún sex sinnum hlotið Grímuverðlaunin: 2004 fyrir titilhlutverkið í Edith Piaf, 2006 fyrir Sólveigu í Pétri Gaut, 2008 fyrir BRÁK, 2013 fyrir hlutverk hinnar pólsku Danielu í Gullregni Ragnars Bragasonar og 2016 fyrir hlutverk Njáls í Njálu. Brynhildur hreppti að auki Grímuverðlaunin 2008 sem Leikskáld ársins fyrir BRÁK sem samið var sérstaklega fyrir Söguloft Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi.

Brynhildur hlaut styrk úr Minningarsjóði Frú Stefaníu Guðmundsdóttur árið 2008 og er hún handhafi Íslensku Bjartsýnisverðlaunanna 2008. Veturinn 2011-2012 var Brynhildur rannsóknarnemandi við Yale School of Drama í Bandaríkjunum þar sem hún lagði stund á leikritun. S.l. vetur leikstýrði Brynhildur óperunni Mannsröddinni hjá Íslensku óperunni. 

Nú síðast fór hún með hlutverk Davíðs Oddssonar í leikritinu Guð blessi Ísland og fékk fyrir frammistöðu sína einróma lof gagnrýnenda. Næsta verk hennar í Borgarleikhúsinu verður söngleikurinn Rocky Horror þar sem hún fer með hlutverk Magentu. Æfingar hefjast nú í janúar og verður sýningin verður frumsýnd í mars.

Starfsfólk Borgarleikhússins óskar Brynhildi innilega til hamingju með þá viðurkenningu sem henni hefur verið veitt.