• Elly

Elly sýnd í 200. skipti

9 feb. 2019

Í dag, laugardaginn 9. febrúar verður 200. sýningin á leikritinu Elly sem fjallar um ævi og ástir einnar vinsælustu söngkonu Íslands fyrr og síðar, Ellyjar Vilhjálms. Aldrei hefur neitt verk verið sýnt jafn oft í Borgarleikhúsinu. 

Fyrra metið átti söngleikurinn MAMMA MIA! sem var sýndur 188 sinnum. Hingað til hafa rúmlega 95 þúsund manns mætt á sýninguna og hækkar sú tala hækkar á hverjum degi.

Elly var frumsýnd laugadaginn 18. mars árið 2017 á Nýja sviði Borgarleikhússins. Sýningin sló strax í gegn og fyrstu mánuðina var hreinlega slegist um sætin inni í salnum. Stundum var fólk mætt allt að tveimur tímum áður en húsið opnaði, fjórum tímum fyrir sýningu, til þess að tryggja sér bestu sætin. Fljótlega var því ljóst að færa þyrfti sýninguna yfir á Stóra sviðið til þess að anna eftirspurn. Eftir það hafa verið tæplega 150 uppseldar sýningar á því sviði.

Leikarar í sýningunni eru þau Katrín Halldóra Sigurðardóttir sem hefur hlotið gríðarlega mikið lof fyrir túlkun sína á Elly, bæði í söng og leik, Björgvin Franz Gíslason leikur m.a. Ragga Bjarna, Villa Vill og KK, Hjörtur Jóhann Jónsson leikur m.a. Svavars Gests og Eyþór Þorláksson, Björn Stefánsson leikur nokkur hlutverk sem og Katla Margrét Þorgeirsdóttir.

Gísli Örn Garðarsson er leikstjóri sýningarinnar en hann er einnig höfundur hennar ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Sigurður Guðmundsson er tónlistarstjóri og er hann einnig í hljómsveit sýningarinnar ásamt Aroni Steini Ásbjarnarsyni, Birni Stefánssyni, Guðmundi Óskari Guðmundssyni og Erni Eldjárn.