Borgarleikhúsið

Færeysk stórstjarna á leið í Borgarleikhúsið

22 feb. 2022

Færeyska stórstjarnan Gunnvá Zachariasen sem glöggir streymisveituneytendur þekkja úr sjónvarpsseríunni Trom sem sýnd er á Viaplay mun stíga á svið í Borgarleikhúsinu í verkinu Þoku sem frumsýnt verður laugardaginn 26. mars.

Þoka er íslensk/færeysk leiksýning fyrir börn sem leikur á mörkum vísinda og þjóðsagna. Sýningin fjallar um náttúrufyrirbrigðið þoku, sem er þegar öllu er á botninn hvolft lítið annað en sveimur örsmárra vatnsdropa, ský sem liggur við jörðu.

Þokuvísindafólkið Hulda og Karlsson eru komin á vettvang með mælitæki sín til að leita ofursjaldgæfrar þoku. Verkefni þeirra reynist þó allt annað en einfalt því margt býr í þokunni og í bland við fræðslu um þetta magnaða veðurfyrirbæri opnast ævintýra- og þjóðsagnaheimur á sviðinu.

Leikarar í sýningunni eru hin fyrrnefnda færeyska Gunnvá Zachariasen og hinn íslenski og mjög svo geðþekki Hilmir Jensson. Skemmtileg, heillandi og fræðandi sýning fyrir þriggja ára og eldri.Leikhópurinn Selur stendur að Þoku í samstarfi við Borgarleikhúsið