Borgarleikhúsið

Fjölskylda Gísla Rúnars kom færandi hendi

26 nóv. 2020

Í miklu blíðskaparveðri fyrir fáeinum dögum, léttu frosti og stillu, kom fjölskylda Gísla Rúnars Jónssonar, færandi hendi og afhenti Leikfélagi Reykjavíkur leiklistarbókasafn hans og ýmsa muni tengda leiklistinni til varðveislu.

Gísli Rúnar var örlátur, stórskemmtilegur og kröfuharður. Fáir stóðu jafnfætis þessum afburðamanni sem brann fyrir öllu sem hann gerði hvort sem það var í leik, leikstjórn, handritaskrifum, - eða lestri og grúski. Bókasafn hans er yfirgripsmikið og glæsilegt og mun eflaust koma kynslóðum framtíðar að ómetanlegum notum. Bækur standast tímans tönn lengur en margt annað. Leikfélagið þakkar höfðinglega gjöf.

Það var aldrei nein lognmolla í kringum Gísla Rúnar og strax kemur upp í hugann limra hans um Orm Loftsson (1912 – 1991) sem birtist í magnaðri bók hans Gervilimrur Gísla Rúnars sem kom út á dögunum. Ormur þessi var veðurfræðingur af lífi og sál, hugleiknust var honum sjálf veðurspáin og stundum svo mjög, að hann sá ekki sólina fyrir henni: 

Wuthering Heights (Fýkur yfir hæðir)

Um ævistarf Orms lék oft næðingur
Og endalaus þoka og slæðingur
með skafhríð og sköflum
og skúrum á köflum
því Ormur var óveðurfræðingur.

Gisli-runar-1-_1606382564141