Forskot á sæluna í september

20 ágú. 2020

Í Borgarleikhúsinu er nú allt tilbúið til að hefja sýningar að nýju og bíða allir með eftirvæntingu eftir því að geta tekið á móti leikhúsgestum á ný.

Áður en húsið opnar formlega ætlum við að bjóða áhorfendum að taka forskot á sæluna með Kartöflum, sýningu sem varð til undir hatti Umbúðalauss á síðasta leikári og var tilnefnd til Grímunnar síðastliðið vor í flokknum Leikrit ársins. Umbúðalaust er vettvangur þar sem ungt sviðslistafólk fær frelsi til að þróa hugmyndir sínar og setja upp sýningar með lítilli umgjörð, eiginlega umbúðalaust! Kartöflur er nýstárlegt verk þar sem fjöllistahópurinn CGFC rannsakar ýmsa kima kartöflusamfélagsins með kartöfluna sjálfa að leiðarljósi. Nú gefst áhorfendum kærkomið tækifæri til að sjá uppskeruna, einmitt þegar verið er að taka upp kartöflur um land allt. Sýningar verða 4. og 11. september.

Leikhúsið opnar svo formlega með pomp og prakt þann 18. september, en þá verður sýningin Oleanna frumsýnd á Nýja sviðinu – fyrir sextíu manns – svo hægt sé að uppfylla öll tilmæli heilbrigðisyfirvalda um sóttvarnir. Oleanna er beitt og meistaralega vel skrifað verk, sem slær okkur út af laginu og spyr óvæginna spurninga. Á tímum þegar umræður og deilur um skilgreiningarvald og ólíkar orðræður hafa magnast er þetta leikrit David Mamets um vald og sannleika ofur eldfimt. Leikarar í Oleanna eru Hilmir Snær Guðnason og Vala Kristín Eiríksdóttir, en Hilmir Snær er einnig leikstjóri verksins ásamt Gunnari Gunnsteinssyni.