Borgarleikhúsið

Frumsýning á Dúkkuheimili, annar hluti

21 sep. 2018

Í kvöld, föstudagskvöldið 21. september, verður frumsýning Nýja sviði Borgarleikhússins á leikritinu Dúkkuheimili, annar hluti. Þar munu leikararnir Hilmir Snær Guðnason og Unnur Ösp Stefánsdóttir fá tækifæri til að leika aftur hlutverk sem þau léku þegar Dúkkuheimili Ibsens var frumsýnt í desember árið 2014. 

Sú sýning sem var margverðlaunuð á Grímunni árið 2015. Í lokasenu þess leikrits, sem er frá árinum 1879, tekur Nóra Helmer þá ögrandi ákvörðun að fara frá eiginmanni sínum og börnum og hefja nýtt líf án þeirra. Þessi hápunktur verksins – þegar Nóra skellir aftur hurðinni á það líf sem hún hefur fram að því lifað – þeytti evrópsku leikhúsi og samfélagsumræðu inn í nútímann. Í Dúkkuheimili, 2. hluta, hefur þó nokkur tími liðið frá brottför Nóru. Núna er bankað á þessar sömu dyr - Nóra er snúin aftur.

Dúkkuheimili, annar hluti er eftir leikskáldið Lucas Hnath. Leikritið var heimsfrumsýnt í apríl 2017 og var tilneft til átta Tony verðlauna það ár. Í kvöld er sama leikrit frumsýnt í Svíþjóð og er það evrópufrumsýning leikritsins, einungis þremur tímum áður en það er frumsýnt í Borgarleikhúsinu.

Auk þeirra Hilmis Snæs og Unnar Aspar leika Ebba Katrín Finnsdóttir og Margrét Helga Jóhannsdóttir í sýningunni. Leikstjóri sýningarinnar er Una Þorleifsdóttir, þýðandi er Salka Guðmundsdóttir, Börkur Jónsson sá um leikmynd, Stefanía Adolfsdóttir um búninga, Björn Bergsteinn Guðmundsson um lýsingu, Una Sveinbjarnardóttir um tónlist, Sveinbjörg Þórhallsdóttir er danshöfundur, Guðbjörg Ívarsdóttir sá um leikgervi og Garðar Borgþórsson um hljóð.

Viðtöl