Frumsýning á Matthildi í kvöld

15 mar. 2019

Stórsýningin Matthildur verður frumsýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins á morgun, föstudaginn 15. mars kl. 19.00. Um er að ræða söngleik sem hefur slegið í gegn víða um heim og er nú sýndur í fyrsta skipti á Íslandi. Gísli Rúnar Jónsson íslenskaði og leikstjóri sýningarinnar er Bergur Þór Ingólfsson.

Sagan um Matthildi er vel þekkt og margir sem hafa ýmist lesið bókin eða séð kvikmyndina. Sagan er eftir Roald Dahl en leikskáldið Dennis Kelly vann söngleik upp úr henni, Tim Minchin samdi tónlistina. Söngleikurinn var frumsýndur árið 2010 hjá Royal Shakesspeare Comapny í Stratford-upn-Avon og var fluttur þaðan á West End og Broadway. Hann hefur víða slegið aðsóknarmet enda glæsilegur söngleikur sem heillar unga sem aldna.

Leikarar í sýningunni eru Arnar Dan Kristjánsson, Björgvin Franz Gíslason, Björn Stefánsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Rakel Björk Björnsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir og Þorleifur Einarsson. Auk þess er 16 manna hópur krakka sem skipta með sér hlutverkum í sýningunni og þrjár ungar stúlkur, Erna Tómasdóttir, Ísabel Dís Sheehan og Salka Ýr Ómarsdóttir skiptast á að fara með hlutverki Matthildar.

Listrænir stjórnendur eru Lee Proud, danshöfundur, Agnar Már Magnússon, tónlistarstjóri, Ilmur Stefánsdóttir, leikmyndahönnuður, María Th. Ólafsdóttir, búningahönnuður, Þórður Orri Pétursson, ljósahönnuður, Ingi Bekk, myndbandshönnuður, Margrét Benediktsdóttir, leikgervahönnuður og Garðar Borgþórsson og Þórður Gunnar Þorvaldsson, hljóðhönnuðir.

Matthildur - stikla