Borgarleikhúsið

  • Úr sýningunni Útlendingurinn - morðgáta Friðgeir og Snorri

Frumsýning á verkinu Útlendingurinn - Morðgáta

2 okt. 2020

Það er fullt hús af lífi í Borgarleikhúsinu og í kvöld föstudaginn 2. október, frumsýnum við Útlendinginn – Morðgátu á Litla sviðinu. 

Friðgeir Einarsson og Snorri Helgason eru flytjendur í þessu einstaka verki, Friðgeir er jafnframt höfundurinn og Snorri semur tónlistina. Þetta er annað verkið frá sama listræna teymi og setti upp verðlaunasýninguna Club Romantica, í þessum ráðgátuþríleik.

Útlendingurinn er skandinavískt raunsæisglæpadrama þar sem mál „Ísdalskonunnar“ er krufið á frumlegan hátt og nýjar óvæntar kenningar dregnar fram í dagsljósið. Ferlið að verkinu hófst þegar Friðgeir Einarsson flutti til Bergen, en þar heillast hann af ráðgátunni og gerir sitt besta til að upplýsa hana í verkinu. Þó kannski ekki á þann hátt sem búast hefði mátt við. Friðgeir er hvorki lögreglumaður né með reynslu af rannsóknarstörfum, en telur sig hafa ákveðna innsýn í hugsunarhátt konunnar. Hann er jú aðkomumaður, rétt eins og hún var.

Leikstjórn er í höndum Péturs Ármannssonar. Brynja Björnsdóttir hannar leikmynd og búninga. Pálmi Jónsson hannar lýsingu og Þorbjörn Steingrímsson gerir hljóðmynd verksins.

Útlendingurinn