Bubbasöngleikurinn Níu líf verður frumsýndur í kvöld

13 mar. 2020

 Söngleikurinn Níu líf sem er byggður á ævi Bubba Morthens verður frumsýndur á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld, föstudaginn 13. mars. Sýningarnar laugardag og sunnudag eru enn á dagskrá. Þær sýningar sem eru á plani eftir að samkomubann tekur gildi verða færðar.

Bubbi Morthens hefur verið einn allra vinsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar síðustu 40 ár og hefur gengið í gegnum ýmis tímabil í sínu lífi og tónlist. Í þessari stórsýningu, sem inniheldur um 40 Bubbalög, eru settar á svið margar af stærstu stundum Bubba, góðar og slæmar, allt frá hans fyrstu árum til dagsins í dag.

Á sviðinu er fjöldi leikara sem allir leika Bubba á einhverju tímabili í hans lífi, auk dansara, hljómsveitar og kórs. Leikarar í verkinu eru Aron Már Ólafsson, Björn Stefánsson, Esther Talia Casey, Halldóra Geirharðsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Rakel Björk Björnsdóttir og Valur Freyr Einarsson.Dansarar eru Sólbjört Sigurðardóttir, Katrín Mist Haraldsdóttir og Sölvi Viggósson Dýrfjörð. Þrír ungir leikarar, Hlynur Atli Harðarson, Baldur Björn Arnarson og Gabríel Máni Kristjánsson, skipta hlutverki litla Bubba á milli sín.

Listrænir stjórnendur eru Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri og höfundur, Ilmur Stefánsdóttir, leikmyndahöfundur, Filippía I. Elísdóttir, búningahöfundur, Björn Bergsteinn Guðmundsson, ljósahönnuður, Gunnar Sigurbjörnsson, hljóð, Elín Sigríður Gísladóttir, leikgervi, Guðmundur Óskar Guðmundsson, tónlistarstjóri og Lee Proud, danshöfundur.