Borgarleikhúsið

Fylgist með!

Við kynnum nýtt og brakandi ferskt leikár í september

1 júl. 2021

Nýtt og brakandi ferskt leikár hefst þann 26. ágúst næstkomandi þegar stórsýningin Níu líf snýr loksins aftur á svið.


Þeir eru ófáir áhorfendurnir sem beðið hafa fullir eftirvæntingar að sjá þennan stórbrotna söngleik um líf Bubba Morthens, sem hefur þurft að bíða af sér heimsfaraldur í bráðum eitt og hálft ár.

Leikárið 2021-2022 verður stútfullt af spennandi sýningum þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Ærslabelgurinn óviðjafnanlegi Emil í Kattholti og systir hans Ída rata á svið í fyrsta sinn í Borgarleikhúsinu, en 1200 einstaklega hæfileikarík og kraftmikil börn sóttust eftir því að leika þessi ástsælu systkin. Fánastöngin, súpuskálin og smiðjukofinn verða að sjálfsögðu á sínum stað.

Fjórar af ástsælustu leikkonum þjóðarinnar, þær Margrét Guðmundsdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Kristbjörg Kjeld og Edda Björgvins, sameina krafta sína í Ein komst undan, mögnuðu verki Caryl Churchill, eins helsta leikskálds Bretlands síðustu áratuga. Sjaldan hefur jafn mikil reynsla verið samankomin á íslensku leiksviði; þetta er sýning sem enginn má missa af.

Töfraheimur Kjarvals verður skoðaður í bráðfallegu og fræðandi verki um málarann sem fór sínar eigin leiðir. Kjarval er sýning sem ætluð er ungmennum frá 10 ára aldri en höfðar til forviti og fegurðþrár allra aldurshópa. Í samstarfi við leikhópinn PólIs, Sprota ársins á síðustu Grímuverðlaunahátíð, verður svo boðið upp á bráðfyndna sýningu á pólsku um ferðalag tveggja ungra Pólverja um Ísland, þar sem óvæntar uppákomur í samskiptum þjóðanna tveggja kitla hláturtaugarnar.

Þetta er aðeins hluti af fjölbreyttri og lifandi verkefnaskrá næsta leikárs. Við hlökkum til að taka á móti ykkur á ný og bjóða ykkur velkomin aftur í Borgarleikhúsið sem mun iða af lífi allan næsta vetur.