Borgarleikhúsið

Fyrsti samlestur á Er ég mamma mín?

11 des. 2019

Í vikunni var fyrsti samlestur á leikritinu Er ég mamma mín? eftir Maríu Reyndal, sem verður frumsýnt á Nýja sviðinu í febrúar. Leikritið er samstarfsverkefni leikhópsins Garps og Borgarleikhússins, en sami listræna teymi hefur m.a. áður gert verðlaunaverkin Sóleyju Rós ræstitækni og sjónvarpsmyndina Mannasiði.

Leikritið gerist á tveimur mismunandi tímaskeiðum. Einn daginn neitar húsmóðirin að leika hlutverk sitt og hættir að sinna heimilinu. Hún fer í verkfall, leggur niður störf og leirtauið safnast upp.

Hvernig tekst heimilisfólki að aðlagast breyttum hlutverkum kynjanna og nýjum valdahlutföllum? Verkið er fjölskyldusaga sem sögð er á tveimur mismunandi tímabilum með áherslu á áhrif hverrar kynslóðar á þá næstu og samskipti hjóna í blíðu og stríðu. Er hægt að brjótast undan hlutverkunum? Eða verður þú alltaf mamma þín?

Leikarar eru Arnaldur Halldórsson, Katla Njálsdóttir, Kristbjörg Kjeld, María Ellingsen, Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Sigurður Skúlason. Leikstjóri og höfundur er María Reyndal og aðrir listrænir stjórnendur eru Egill Ingibergsson sem sér um leikmynd og lýsingu, Margrét Einarsdóttir, búningahöfundur, og Úlfur Eldjárn sem sér um hljóð og tónlist.