Borgarleikhúsið

Fyrsti samlestur á Orlandó

26 jan. 2021

Föstudaginn síðastliðinn, 21. janúar, var fyrsti samlestur á Orlandó, nýrri leikgerð Kristínar Eiríksdóttur og Arnbjargar Maríu Danielsen á samnefndri skáldsögu Virginiu Woolf. Upphaflega stóð til að sýningin yrði sett upp í desember 2020 en nú er ljóst að frumsýning verður á Nýja sviðinu á komandi leikári.


Orlandó er af mörgum talin skemmtilegasta skáldsaga Virginiu Woolf. Hún byggði persónu Orlandó á ástkonu sinni, ljóðskáldinu Vitu Sackville-West og hefur skáldsagan stundum verið nefnd lengsta og mest hrífandi ástarbréf enskrar tungu. Sagan er leikandi létt, spannar margar aldir, sögu heimsveldisins, upphaf femínismans, ástir og örlög og síðast en ekki síst fjallar hún um töframátt skáldskaparins.

Hnífskarpt og fyndið – hér er á ferðinni töfrandi og ljóðrænn dans um tíma, rúm og kyngervi, saga manneskju sem fær ekki aðeins að upplifa tímana tvenna – heldur að reyna til fulls þá möguleika sem mennskan sjálf ber í sér.

Leikstjóri: Arnbjörg María Danielsen 
Leikgerð: Kristín Eiríksdóttir og Arnbjörg María Danielsen
Leikmynd og búningar: Ingibjörg Jara Sigurðardóttir
Lýsing: Ingi Bekk
Tónlist: Herdís Stefánsdóttir
Leikgervi: Rakel María Hjaltadóttir
Hljóðmynd: Þórður Gunnar Þorvaldsson