Fyrsti samlestur á Veislu

9 jún. 2020

Það er bara ekkert skemmtilegra en gott partý!
Á dögunum var fyrsti samlestur á Veislu, nýtt verk sem samið er af leikhópnum en hann skipa Saga Garðarsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Sigrún Edda Björnsdóttir og Halldór Gylfason.

Geggjuð stemmning, vinir í glasi, gjafir, bestu lögin spiluð hátt, gott slúður og grillaðar pylsur á miðnætti. En það er hægt að klúðra þessu. Kannski leigir maður of stóran sal eða velur of flókið þema. Gleymdist að fá leyfi frá nágrönnunum? Er Sigrún frænka ekki of taugaveikluð til að vera veislustjóri? Veislur eru mikilvægur hluti af lífinu. Hugsið ykkur bara öll afmælin sem við höfum farið í, árshátíðirnar, útskrifarveislurnar, brúðkaupin, matarboðin, allar brauðterturnar og kransakökurnar sem við höfum innbyrt með freyðivíni eða beljurauðvíni í plastglösum á fæti sem tollir illa.

Hinn vinsæli Berndsen gerir tónlistina og Veisla verður því bragðgóð en görótt blanda af grínsketsum og tónlist sem svarar áleitnum spurningum á borð við hvort tartalettur séu góðar í alvörunni og hversu vel megi skemmta sér í erfidrykkjum.

Verkið Veisla hefur fengið nýjan stað og verður frumsýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins þann 18. september næstkomandi. Veisla er í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar.

Veisla aldarinnar fyrir veisluþyrsta þjóð!