Borgarleikhúsið

Fyrsti samlestur fyrir Oleanna

5 feb. 2020

Í vikunni var fyrsti samlesturinn fyrir leikritið Oleanna eftir David Mamet sem verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins þann 27. mars. Leikarar í verkinu eru þau Ólafur Darri Ólafsson og Vala Kristín Eiríksdóttir og leikstjórinn er Hilmir Snær Guðnason.

Sagan segir frá ungri námskonu sem kemur í einkaviðtalstíma til háskólakennara sem á von á stöðuhækkun og er að kaupa sér hús. Það sem byrjar sem sjálfsögð hjálp við námið breytist hins vegar í miskunnarlausa orrahríð og ógnvænlega atburðarás sem kollvarpar valdajafnvæginu á milli þeirra – og lífinu sjálfu í leiðinni.

Hvert er sambandið á milli valds, tungumáls og kynjamisréttis? Það er ein af þeim áleitnu spurningum sem þetta beitta og meistaralega skrifaða leikrit slær okkur út af laginu með. Verk um vald og sannleika sem lætur engan ósnortinn.

Kristín Eiríksdóttir þýðir verkið, Sean Macaoui hannar leikmynd og búninga, Þórður Orri Péturrson hannar lýsingu, Margrét Benediktsdóttir hannar leikgervi og Garðar Borgþórsson hannar hljóðmynd.