Gísli Rúnar Jónsson - kveðja frá starfsfólki

30 júl. 2020

Gísli Rúnar Jónsson lést 28. júlí síðastliðinn aðeins sextíu og sjö ára að aldri. Hann var afkastamikill og ástríðufullur leikhúsmaður sem ólýsanlegur missir er að. 

Gísli Rúnar Jónsson lést 28. júlí síðastliðinn aðeins sextíu og sjö ára að aldri. Hann var afkastamikill og ástríðufullur leikhúsmaður sem ólýsanlegur missir er að. Gísli Rúnar nam leiklist hjá Ævari Kvaran, leikara, í Leiklistarskóla leikhúsanna og The Drama Studio í Lundúnum. Hann starfað sem leikari og leikstjóri, en jafnframt var hann afkastamikill handritshöfundur fyrir leiksvið, sjónvarp, útvarp og kvikmyndir. Hjá Leikfélagi Reykjavíkur lék hann meðal annars í Skornum skömmtum, Sölku Völku, Svartfugli, Á köldum klaka, Pétri Pan, Sex í sveit og Stjórnleysingi ferst af slysförum. Hann leikstýrði m.a. Félegu fési, Gleðigjöfum og Trúðaskólanum. Síðustu áratugi var Gísli einn fremsti þýðandi þjóðarinnar, ekki síst á gamansömum leikritum og söngleikjum. Á meðal gamanleikja sem hann þýddi má nefna Gleðigjafana, Úti að aka, Nei, ráðherra, Fló á skinni, Brilljant skilnaður, Viltu finna milljón, Allir á svið, Sex í sveit og Beint í æð!, og harmskopleikina Milljarðamærin snýr aftur, Mein Kampf og Leitin að vísbendingu um vitsmunalíf í alheiminum. Einnig þýddi hann söngleiki á borð við Matthildi, Mary Poppins, Oliver!, Anní, Honk!, Kysstu mig Kata, Grease, Chicago, Litlu hryllingsbúðina og Sweeney Todd. Hann var einstaklega vandvirkur, hugvitsamur og klókur þýðandi.

Leikfélag Reykjavíkur stendur í óendanlega mikilli þakkarskuld við mikilhæfan snilling og gleðigjafa sem ávallt sýndi viðfangsefnum sínum eldheitan áhuga. Starfsfólk Borgarleikhússins minnist hans af mikilli virðingu og djúpum söknuði og vottar fjölskyldu hans dýpstu samúð.