Borgarleikhúsið

Guðmundur Guðmundsson - G.G. er látinn (1939-2022)

22 ágú. 2022

Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi sýningarstjóri og heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur lést þann 9. ágúst síðastliðinn. Óhætt er að segja að GG, eins og Guðmundur var alltaf kallaður innan leikhússins, hafi verið einn af burðarásum Leikfélagsins um áratuga skeið.

 
Hann gekk til liðs við LR í Iðnó um miðbik sjöunda áratugarins og var helsti sýningastjóri leikhússins, allt þar til hann lét af störfum eftir rúmlega fjörutíu ára starf í þágu Leikfélags Reykjavíkur. Þær eru ótölulegar sýningarnar sem GG stýrði á sinni starfsævi og þáttur hans í starfsemi Leikfélagsins var ómetanlegur. Þó GG hafi komið fram á sviðinu í Iðnó í einstaka verkum – m.a. í þöglu hlutverki eiginmanns Soffíu (Guðrún Stephensen) í Dómínó Jökuls Jakobssonar – þá var hann sem sýningarstjóri ósýnilegur áhorfendum, dyggur þjónn listarinnar sem sá til þess að allt gengi snurðulaust fyrir sig á sviðinu. Hann var lífið og sálin í húsinu og mikill vinur þeirra sem með honum störfuðu.

GG var annt um Leikfélagið og sögu þess. Hann hélt merkilegt myndasafn úr starfsemi Leikfélagsins og átti frumkvæði að því að taka upp sýningar og halda utan um þær upptökur til komandi kynslóða. Það má þakka þessu frumkvöðlastarfi GG að slíkar heimildir eru til um margar sýningar LR í gegnum tíðina.

Að loknu ævistarfi var GG útnefndur heiðursfélagi í Leikfélagi Reykjavíkur árið 2013 og við í Borgarleikhúsinu minnumst hans af hlýhug og þakklæti.