Borgarleikhúsið

  • Land míns föður

Guðrún Ásmundsdóttir er 85 ára í dag

19 nóv. 2020

Guðrún Ásmundsdóttir, leikkona, er 85 ára í dag 19. nóvember 2020. Guðrún hóf störf hjá Leikfélaginu haustið 1958 og starfaði þar áratugum saman. Hún varð heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur árið 2009 og hlaut heiðursverðlaun Íslensku leiklistarverðlaunanna, Grímunnar, árið 2018.

Guðrún stundaði nám í leiklistarskóla Lárusar Pálssonar, Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og auk þess í The Central School og Speech Training and Dramatic Art í London. Hún hefur verið einn af burðarstólpum Leikfélagsins og á að baki um 90 hlutverk hjá LR, má þar fyrst nefna Ásdísi í Hart í bak eftir Jökul Jakobsson sem frumsýnt var 1962. Þar sló Guðrún rækilega í gegn. Sýningar urðu yfir 200 bæði í Reykjavík og fyrir troðfullum húsum allt í kring um landið. Að því leyti mikil tímamót í íslenskri leikritun. Hún lék Nóru í Brúðuheimilinu, frú Heiberg í Úr lífi ánamaðkanna, Geirþrúði Danadrottningu í Hamlet og svo mætti lengi áfram telja.

Guðrún var ein fremsta sprautan í fjáröflun fyrir byggingu Borgarleikhússins sem var loks opnað árið 1989. Hún tók þátt í fjölmörgum skemmtunum Húsbyggingasjóðs LR sem leikari og leikstjóri en hún leikstýrði á annan tug leikrita hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Meðal annars leikstýrði hún Þegar amma var ung árið 1968, og er því meðal fyrstu kvenleikstjóra landsins. Hún leikstýrði einnig Íslendingaspjöllum en báðar þessar sýningar, sem voru í revíustíl, voru sýndar í Austurbæjarbíói til fjáröflunar fyrir byggingu Borgarleikhússins. Hún er ekki einungis leikkona og leikstjóri heldur einnig leikskáld. Eftir hana liggja um tíu leikrit meðal annars Mér er alveg sama þótt einhver sé að hlæja að mér, Upp með teppið Sólmundur, Heilagir syndarar, barnaleikritið Lóma og Kaj Munk með Arnar Jónsson í titilhlutverki. Það var leikið í Hallgrímskirkju, í Vartov-kirkju í Kaupmannahöfn og í Veddersö þar sem Kaj Munk var prestur í 20 ár. Þar var hún sæmd Kaj Munk-verðlaununum.

Guðrún er mikil og stórskemmtileg sagnakona og hér má sjá hana segja sögur á Listasafni Reykjavíkur árið 2013.

Við óskum Gunnu til hamingju með afmælið og þökkum henni fyrir einstakt samstarf, skemmtilegar sögur og gleðihlátur.

Guðrún lítur yfir farinn veg