Borgarleikhúsið

Helgi Þór rofnar í Chicago

19 feb. 2020

Leikritið Helgi Þór rofnar eftir Tyrfing Tyrfingsson, sem nú er í sýningu á Nýja sviði Borgarleikhússins, verður leiklesið fyrir áhorfendur á hátíðinni Nordic Spirit Festival í Chicago í næstu viku. Á hátíðinni verða lesin nokkur ný verk eftir höfunda frá Skandinavíu þar á meðal nýjasta verkið hans Jonas Khemiri, þess sem skrifaði Um það bil.

Helgi Þór rofnar er fimmta verkið sem er sett upp eftir Tyrfing í Borgarleikhúsinu en fá af leikskáldum nýrrar kynslóðar hafa vakið jafn mikla athygli og notið jafn mikillar hylli. Áður hafa verkin Kartöfluæturnar og Bláskjár verið flutt og kynnt á leiklistarhátíðum í Evrópu þar á meðal á Avignon hátíðinni í Frakklandi. Kartöfluæturnar verða settar á svið í einu virtasta leikhúsi Hollands, Toneelgroep Oostpool næsta vetur.

Helgi Þór rofnar, sem kallast á ensku Helgi Comes apart, var frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins þann 18. janúar sl. og verður lokasýning leikritsins í mars.