Borgarleikhúsið

Hundur í óskilum með glænýja sýningu

Æfingabúðir fyrir norðan

19 ágú. 2021

Félagarnir í Hundi í óskilum standa í ströngu þessa dagana í vinnubúðum hjá Stefáni og Ingu í Leifshúsum Art Farm á Svalbarðsströnd Eyjafirði þar sem þeir vinna að nýrri leiksýningu sem kallast Njála á hundavaði.


Leikstjórinn Ágústa Skúladóttir og búninga og leikmyndahönnuðurinn Þórunn María Jónsdóttir eru með þeim félögum í för.  Drepfyndin sýning er þar væntanleg þar sem þeir Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur Stephensen stökkva hæð sína í fullum herklæðum í gegnum skrautlegt persónugallerí Njálu og við sögu koma taðskegglingar, hornkerlingar, kinnhestar, kartneglur, og þjófsaugu svo fátt eitt sé nefnt.

Hundur í óskilum eru leikhúsgestum vel kunnugir enda slógu þeir í gegn með fyrri sýningar sínar Saga þjóðar, Öldin okkar og Kvenfólk.  Frumsýning á Njálu á hundavaði verður í nóvember.