Borgarleikhúsið hlýtur jafnlaunavottun

18 ágú. 2020

Borgarleikhúsið hlaut nú á dögunum jafnlaunavottun fyrir starfsemi sína, en slík vottun er staðfesting á því að jöfn laun séu greidd fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni, sem stuðlar að jafnrétti kynjanna. 

Vottunin á jafnlaunakerfinu nær til allra starfsmanna Borgarleikhússins. Borgarleikhúsið naut aðstoðar Gyðu Bjargar Sigurðardóttur hjá Ráði í ferlinu og var jafnlaunastefnan unnin samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012.

„Við erum einstaklega ánægð að hafa náð þessum áfanga, enda viljum við vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Markmið Borgarleikhússins er að allt starfsfólk njóti jafnra tækifæra og sé metið að verðleikum. Greining sem þessi veitir okkur betri innsýn inn í laun og kjör og verður hún áfram nýtt til að vakta að þau séu í samræmi við stefnu okkar um launajafnrétti.“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins.

Mynd var tekin við afhendingu vottunarskírteinisins í Borgarleikhúsinu, og var það afhent af vottunaraðila iCert, Guðmundi Sigbergssyni. 

Á meðfylgjandi mynd eru Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri og Guðmundur Sigbergsson framkvæmdastjóri iCert.