Borgarleikhúsið

Jón Sigurbjörnsson heiðursfélagi LR fallinn frá

2 des. 2021

Jón Sigurbjörnsson, leikari, óperusöngvari og heiðursfélagi í Leikfélagi Reykjavíkur er látinn, 99 ára að aldri.


Jón var ein af burðarstoðum Leikfélags Reykjavíkur um áratugaskeið. Hann gekk í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og kom á námstíma sínum þar fram í sýningum Leikfélagsins á Kaupmanninum í Feneyjum og Skálholti, áður hann flutti til New York og nam leiklist við American Academy of Dramatic Arts. Að lokinni útskrift 1948 sneri hann aftur til Leikfélagsins og lék Hóras í Hamlet árið 1949. Jón var formaður Leikfélags Reykjavíkur 1956-59 og fastráðinn leikari hjá Leikfélaginu frá 1967 til 1992. Jón lék hátt í 80 hlutverk á ferli sínum hjá Leikfélagi Reykjavikur og var afkastamikill leikstjóri, auk þess sem hann lék fjölda hlutverka í Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni, en hann hafði einnig stundað nám í söng á Ítalíu. Meðal minnistæðra hlutverka Jóns hjá Leikfélagi Reykjavíkur má nefna Makka hníf í Túskildingsóperunni (1959), Kreon í Antígónu Sófóklesar (1969), Skugga-Sveinn (1972), Håkon Werle í Villöndinni (1976) og Lopakin í Kirsuberjagarðinum (1979). Síðasta hlutverk sitt hjá Leikfélagi Reykjavíkur lék Jón í verkinu Ljón í síðbuxum eftir Björn Th. Björnsson á Stóra sviði Borgarleikhússins árið 1992. Jón Sigurbjörnsson var gerður að heiðursfélaga Leikfélags Reykjavíkur 1994 og hlaut heiðursverðlaun Grímunnar árið 2005.

Starfsfólk Borgarleikhússins sendir aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þessa merka listamanns.