Borgarleikhúsið

Kennsla hafin í Leiklistarskóla Borgarleikhússins

9 sep. 2020

Kennsla í Leiklistarskóla Borgarleikhússins hófst í vikunni. Skólinn hefur vaxið með hverju árinu og í vetur stunda alls 65 nemendur nám á þremur stigum. Skólinn býður upp á metnaðarfullt leiklistarnám fyrir börn á aldrinum 10-16 ára.

Inntökuprufur fyrir skólann fóru fram í lok ágúst en alls sóttu 102 börn um 26 laus pláss við skólann.

Í vor munu nemendur skólans taka þátt í uppskerusýningu á Nýja sviði Borgarleikhússins. Þar munu nemendur á lokaári sýna frumsamið leikverk undir leikstjórn Bergdísar Júlíu Jóhannsdóttur og nemendur á 1. og 2. ári sýna stutt atriði. Að auki munu nemendur á lokaári setja upp verðlaunahandrit Krakkar Skrifa á Nýja sviðinu í nóvember á þessu ári undir leikstjórn Guðmundar Felixsonar. Sýningin verður tekin upp í samvinnu við Krakkarúv.

Að auki bjóðum við nemendum okkar upp á dans- og söngtíma á laugardögum í fyrsta sinn í vetur.

Við skólann starfar glæsilegur hópur sviðslistakennara sem öll eru háskólamenntuð í leiklist. Skólastjóri skólans er Emelía Antonsdóttir Crivello.

Við skólann kenna:

Auður Bergdís Snorradóttir

Auður útskrifaðist sem leikkona frá Royal Academy of Dramatic Art í London árið 2016, en hafði áður stundað nám á Nútímalistdansbraut Listdansskóla Íslands. Síðusta áratuginn hefur Auður unnið með þekkingu sína í dansi og leiklist sem leikkona, danshöfundur, dansari, leikstýra og sviðslistakennari víða á Íslandi sem og erlendis. Auður kennir jazzballet og söngleikjadans við skólann.

Bergdís Júlía Jóhannsdóttir

Bergdís er leikkona, leikstjóri og sviðslistakennari. Hún útskrifaðist frá Rose Bruford College í Englandi og stofnaði þar leikhópinn Spindrift ásamt fjórum öðrum ungum konum. Hópurinn hefur sýnt sýningar sínar og leitt vinnustofur á Norðurlöndunum og í Bretlandi og Skotlandi. Hún hefur einnig starfað með Leikhópnum Lottu og sænska femíníska dúóinu Blaue Frau. Bergdís kennir nemendum á 2.stigi á haustönn og mun kenna og leikstýra nemendum á 3.stigi í útskriftarverkefni þeirra á vorönn.

Emelía Antonsdóttir Crivello

Emelía stundaði BA nám á sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands og MA nám í listkennslu við sama skóla. Barnamenning og sviðslistakennsla eru Emelíu hugleikin og hefur hún starfað sem sviðslistakennari í rúman áratug. Hún hefur m.a. rekið dansskóla á Austurlandi, Dansstúdíó Emelíu frá árinu 2007, og starfað víðsvegar við verkefnastjórn. Auk þess að vera starfandi skólastjóri við leiklistarskólann kennir hún nemendum á 1.stigi leiklist og skapandi dans á laugardögum.

Eva Halldóra

Eva Halldóra er sviðshöfundur og forstöðumaður í félagsmiðstöðinni 100&1. Hún hefur sinnt margskonar skapandi verkefnum með unglingum. M.a. kennt leiklist í Austurbæjarskóla, verið listrænn leiðbeinandi verkefnisins unglingar gegn ofbeldi sem er samstarfsverkefni Stígamóta og Samfés, unnið að margskonar forvarnarverkefnum á borð við Erasmus verkefnið Beyond Metoo sem snýr að kynfræðslu og fræðslu unglinga um jafnrétti. Hún hefur leikstýrt hinum ýmsu hópum á grunnskólaaldri í leikrænni vinnu. Eva Halldóra sinnir forfallakennslu við skólann.

Guðmundur Felixson

Guðmundur Felixson er sviðshöfundur og spunaleikari. Hann er einn af stofnendum Improv Ísland og núverandi listrænn stjórnandi leikhópsins. Guðmundur skrifar og leikur sketsa með leikhópnum KANARÍ og hefur unnið um nokkurt skeið sem tæknimaður við hinar ýmsu sýningar hjá sjálfstæðum leikhópum. Guðmundur hefur kennt fjölmörg spunanámskeið á vegum Improv Ísland ásamt því að hafa leikstýrt leiksýningum í nokkrum menntaskólum. Guðmundur kennir og leikstýrir útskriftarnemendum í verkefninu Krakkar skrifa á haustönn.

Hallveig Kristín

Hallveig Kristín Eiríksdóttir er sviðshöfundur. Hún lauk BA gráðu við Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands vorið 2018 og hefur starfað sem höfundur og flytjandi í samsköpunarferlum, leikstjóri og leikmyndahönnuður. Hún starfar með sviðslistahópunum CGFC og leikhópnum Losta, og setur upp sýningar með báðum hópum á þessu leikári, eitt um kartöflur og hitt um sleðahunda. Hallveig kennir nemendum á 2. stigi á haustönn.

Ólafur Ásgeirsson

Ólafur Ásgeirsson útskrifaðist af leiklistarbraut Listaháskóla Íslands árið 2015. Hann stundaði í kjölfarið nám við The Michael Chekhov Acting Studio í New York veturinn 2015-2016. Ólafur hefur lært, kennt og sýnt spuna með Improv Ísland frá stofnun leikhópsins árið 2015, auk þess sem hann hefur kennt leiklist á öllum skólastigum. Ólafur er þessa dagana að læra pólsku fyrir sýningu sem fram fer á pólsku í Tjarnarbíó í október. Ólafur kennir nemendum á 1.stigi á haustönn.

Rakel Björk

Rakel Björk Björnsdóttir útskrifaðist af leikarabraut við Listaháskóla Íslands vorið 2019 og starfar sem leikkona við Borgarleikhúsið. Rakel kemur einnig reglulega fram sem söngkona en hún lauk diplóma söngnámi í Complete Vocal Technique frá Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn árið 2015. Rakel fer með hlutverk unga Bubba, Ingu og Brynju í Bubba söngleiknum 9 líf á stóra sviði Borgarleikhússins og hlutverk Lóu í verkinu Taktu lagið Lóa. Hún fór með hlutverk Fríðu Hugljúfu í söngleiknum Matthildi, hún hefur einnig tekið þátt í Leikskólasýningu ársins tvö ár í röð. Rakel kennir söng við leiklistarskólann.

Ylfa Ösp Áskelsdóttir

Ylfa útskrifaðist sem leikkona árið 2007 og hefur unnið mikið innan sjálfstæðu leikhúsanna með ýmsum leikhópum. Eftir leikaranámið bætti hún við sig kennaramenntun og hefur unnið við kennslu á flestum skólastigum en starfar núna sem leiklistarkennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Ylfa hefur lagt stund á spunaleik og verið meðlimur í sýningarhóp Improv Ísland undanfarin ár. Hún er einnig meðlimur í leikhópnum 16 elskendur. Ylfa kennir nemendum á 2. stigi á haustönn.

  • BergdisJuliaJohannsdottir
  • EmeliaAntonsdottirCrivello
  • EvaHalldoraGudmundsdottir
  • GudmundurFelixson
  • HallveigKristinEiriksdottir
  • OlafurAsgeirsson
  • YlfaOspAskelsdottir