Leiklistarskólinn stækkar

Nú eru spennandi tímar framundan hjá Leiklistarskóla Borgarleikhússins í haust. Vegna mikillar eftirspurnar stendur til að fjölga nemendum og það er því ánægja að tilkynna að í haust verður boðið upp á inntökupróf fyrir tvo nýja hópa.

Í skólanum verða því um 50 nemendur á næsta leikári. Öllum börnum á aldrinum 9-13 ára er velkomið að spreyta sig en nánari upplýsingar um inntökuprófin verða birtar í ágúst.

Nýr skólastjóri, Árni Kristjánsson, tekur við af Vigdísi Másdóttur sem jafnframt stofnaði Leiklistarskóla Borgarleikhússins árið 2016. Fyrsta útskrift skólans var haldin í vor og sýndi útskriftarhópurinn frumsamda leiksýningu með búningum, ljósum og öllu tilheyrandi á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Það hefur myndast virkilega sterkur kjarni og góður andi hjá núverandi nemendum og dásamlegt að sjá hvað þessum ungu leikaraefnum vegnar vel í lífi og leiklist. Margir af nemendum skólans hafa tekið þátt í alls kyns uppfærslum í leikhúsi sem og leiknu efni fyrir sjónvarp og kvikmyndir.

Stefna skólans er að þjálfa nemendur í að nýta sér forvitni, sköpun og eigin tjáningu til hins ítrasta í leiklistinni.

Umsóknarfrestur er til föstudagsins 23. ágúst og inntökuprófin verða dagana 26.-28. ágúst.

Frekari upplýsingar um leiklistarskólann er hægt að fá með því að senda póst á leiklistarskoli@borgarleikhus.is. Hægt er að nálgast umsóknareyðublað hér .