Borgarleikhúsið

Leiklistarsmiðjan Léttir haldin í annað sinn

30 maí 2022

Borgarleikhúsið tók nýverið í annað sinn á móti hópi barna sem eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi.

Hópurinn tók þátt í samveru og leiklistarsmiðju sem kallast Léttir og er verkefni á vegum Leiklistarskóla Borgarleikhússins og er styrkt af Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar. Verkefnið er hluti af þeirri vegferð Borgarleikhússins að auka aðgengi að menningarstarfsemi hússins og er unnið í samvinnu við Teymi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hjá Reykjavíkurborg. 

Það er okkur í Borgarleikhúsinu mikill heiður að geta boðið til sín þessum þátttakendum, en þetta voru átta börn á aldrinum 8-13 ára og fengu þau m.a. að velja sér búninga og spreyta sig í leiklistarspuna. Áhersla var lögð á sköpun og leikgleði og að reyna leiklistarkennslu með lágmarks áherslu á tungumálið. Þátttakendur fóru einnig í skoðunarferð um húsið, borðuðu saman hádegismat og að lokum var þeim boðið á sýningu á Emil í Kattholti. 

 Umsjón með verkefninu var í höndum Emelíu Antonsdóttur Crivello, Evu Halldóru Guðmundsdóttur og Höllu Bjargar Randversdóttur.