Borgarleikhúsið

Magnús Sædal Svavarsson (1946-2022)

4 ágú. 2022

Magnús Sædal Svavarsson, fyrrverandi byggingarfulltrúi Reykjavíkur og byggingarstjóri Borgarleikhússins er látinn, aðeins 76 ára að aldri.

Magnús var húsasmíðameistari en lauk einnig prófi sem byggingatæknifræðingur frá Tækniskóla Íslands árið 1973. Hann hóf störf hjá byggingardeild borgarverkfræðings árið 1984 en hlutverk hans þar var að sjá um mannvirki borgarsjóðs, byggingu, hönnun og eftirlit, svo fátt eitt sé nefnt. Hafði hann þar umsjón með byggingu Borgarleikhússins og starfaði því náið með starfsfólki Leikfélags Reykjavíkur um nokkurt skeið. Magnús sinnti störfum sínum af brennandi áhuga og stýrði hann framkvæmd af eldmóði og metnaði. Hann var fylginn sér og lá ekki á skoðunum sínum. Fúsk var eitur í hans beinum, enda hefur marg sannast að Borgarleikhúsið er sérlega vel byggt. Húsið hefur reynst mjög vel og þykir þar þakið kapítuli útaf fyrir sig. Skemmtilegar sögur eru af því þegar steypubílar komu með fullfermi en þá lét Magnús taka sýni og stæðist steypan ekki væntingar var steypubíllinn umsvifalaust sendur burt. Verkfundir voru haldnir á hverjum morgni þar sem nú er skrifstofa leikhússtjóra og talar Leikfélagsfólk af kærleika og virðingu um Magnús Sædal, enda öll hans vinna gegnsýrð af áhuga og væntumþykju. 

Magnús bjó yfir miklum fróðleik, hann var glettinn og sagði skemmtilega frá. Fyrir skemmstu kom Magnús í heimsókn í húsið og miðlaði af þekkingu sinni og minningum. Þetta var skemmtileg heimsókn og urðum við, önnur kynslóð, margs vísari. Meðal annars fór Magnús með leikhússtjóra, skipulagsstjóra og umsjónarmann hússins eftir leynileiðum upp í þak byggingarinnar og benti á leyni-lúgu sem enginn hinna vissi af - og þó þekktu hinir tveir síðarnefndu hvern krók og kima. 

Það er aðdáunarvert að sjá vandvirkni og væntumþykju fléttast saman í verkum fólks. Magnús Sædal Svavarsson er einn þeirra sem veg og vanda höfðu af því að Borgarleikhúsið reis glæsilega og vel. Þar var hugsjónin í fyrirrúmi. 

Starfsfólk Borgarleikhússins sendir aðstandendum Magnúsar dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.