Borgarleikhúsið

Málþing á vegum Leikfélags Reykjavíkur

21 sep. 2022


Á málþinginu munu Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku við Háskóla Íslands, og leiklistarfræðingarnir Sveinn Einarsson, fyrrum leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur og Þjóðleikhússins, og Magnús Þór Þorbergsson, leiklistarráðunautur Borgarleikhússins, fjalla um dönsk áhrif í íslenskri menningu og leikhúsi á síðari hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu.

Tilefni málþingsins er að um þessar mundir fagna Danir því að 300 ár eru liðin frá upphafi leiklistar í Danmörku, en þann 23. september 1722 opnuðu Ludvig Holberg og René Montaigu leikhús í Lille Grønnegade í Kaupmannahöfn, þar sem í fyrsta sinn var leikið opinberlega á dönsku.

Frá fyrstu opinberu leiksýningunum í Reykjavík um miðja nítjándu öld og fram yfir aldamótin 1900 voru danskir gamanleikir mjög ráðandi á íslenskum leiksviðum og nutu mikilla vinsælda. Á upphafsárum Leikfélags Reykjavíkur voru þeir áberandi á verkefnaskránni og má nefna að á fyrsta leikárinu 1897-1898 voru níu af ellefu frumsýndum verkefnum félagsins danskir gamanleikir. Dönsk áhrif voru því bersýnilega mikil á fyrstu áratugum leiklistar á Íslandi og mátti jafnvel greina þau töluvert eftir að dönsku gamanleikirnir hurfu af sviðinu.

Að loknum erindum Auðar, Sveins og Magnúsar verða flutt atriði úr Ævintýri á gönguför eftir Jens Christian Hostrup, sem naut gríðarlegra vinsælda á Íslandi langt fram eftir tuttugustu öld.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.