Borgarleikhúsið

Mikið um að vera hjá Leiklistarskólanum

11 maí 2022

Þann 4 og 5. apríl voru vorsýningar og útskrift hjá Leiklistarskóla Borgarleikhússins. Alls útskrifuðust 24 ungleikarar sem lokið hafa þriggja ára námi í skólanum. 

Nemendur á fyrsta og öðru ári ásamt útskriftarnemunum sýndu lokasýningar sínar og voru því um áttatíu börn sem stigu á stokk á Litla sviðinu við mikil fagnaðarlæti viðstaddra. Sýningar útskriftarnema, Stöð 7 og Dagur í lífi, voru frumsamdar af útskriftarnemendum undir leikstjórn Birnu Rúnar Eiríksdóttir og Evu Halldóru Guðmundsdóttur. Hönnuður leikmyndar og búninga var Júlíanna Lára Steingrímsdóttir.

Mikil aðsókn er í námið í Leiklistarskólanum en opnað hefur verið fyrir skráningu í inntökuprufur fyrir börn sem sækja um að hefja námsvist haustið 2022. Athugið að aðeins er tekið við umsóknum frá börnum fæddum á árunum 2009-2012. Umsóknarfrestur er til og með 15.ágúst. Prufurnar fara fram í Borgarleikhúsinu dagana 25-28. ágúst 2022. Þau sem skráð eru í prufu fá sent boð í tölvupósti með nákvæmri tímasetningu. Skráning í prufurnar fer fram hér. 

Leiklistarskóli Borgarleikhússins býður upp á spennandi og metnaðarfull sumarnámskeið í júní og júlí fyrir börn og unglinga á aldrinum 8-16 ára. Hvert námskeið er ein vika (fimm dagar í senn), fjórir tímar á dag og endar með uppskerusýningu á Litla sviði Borgarleikhússins. Námskeiðin eru kennd í æfingasal leikhússins en á góðviðrisdögum verður einnig farið út. Enn er laust í nokkra hópa, nánari upplýsingar og skráningu má finna hér.