Borgarleikhúsið

BLOOM í Borgarleikhúsinu

Norrænt samstarfsverkefni

9 jún. 2021

BLOOM er metnaðarfullt verkefni sem verður til í samvinnu milli Kristjáns Ingimarssonar Company (KIC), Teater Nordkraft í Álaborg (DK), Hálogaland Teater í Tromsö (NO) og Borgarleikhússins (ÍS).


BLOOM er fyrsta stóra samstarfsverkefnið sem sprettur upp úr nýju norrænu samstarfsneti, Yggdrasil, þar sem leikhús og leikhópar sem starfa í Skandinavíu vinna saman.

Hugmyndin er að framleiðsla þvert á landamæri styðji við bakið á sjálfstæðri leikhússenu. Í framleiðslu BLOOM verður samstarfið með nýstárlegum hætti þar sem KIC sér um listræna framleiðslu og útfærslu, sem meðal annars er unnin í gegnum vinnustofur en leikhúsin þrjú sem koma að samstarfinu sjá svo um uppsetningu á hverjum stað fyrir sig.

Í samstarfinu er lögð mikil áhersla á að nýta eins og mögulegt er starfskrafta á hverjum stað fyrir sig, þegar sýningin ferðast um. Þess vegna er stefnan sú að tveir til þrír leikarar frá fyrsta sýningartímabilinu í Álaborg fari með til annars vegar Íslands og hins vegar Noregs, þar sem tveir til þrír leikarar frá Borgarleikhúsinu og leikhúsinu í Hálogalandi verða svo æfðir inn í sýninguna á nýju sex vikna æfingatímabili. Hér er komið spennandi tækifæri fyrir hefðbundin leikhús til að vinna með tilraunakenndari leikhópum og í þessu tilfelli gefur það KIC einnig tækifæri til þess að bjóða ólíkum leikurum að kynnast aðferðum hópsins. Þannig fær stór uppfærsla lengra líf og fleiri fá tækifæri til þess að sjá hana, bæði hérlendis og erlendis.

Allir leikarar BLOOM eru konur og verður sýningin ófilteruð sprengja af þeim litríka, líkamlega frumkrafti sem einkennir jafnan ævintýralegar sýningar Kristjáns Ingimarssonar.

2_1624021467771

Myndin er tekin við undirritun samningsins á Zoom.