Borgarleikhúsið

  • leikskald

Ný hússkáld Borgarleikhússins

26 ágú. 2020

Eva Rún Snorradóttir og Matthías Tryggvi Haraldsson mættu til starfa í dag, en þau voru valin leikskáld Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur, leikárið 2020-2021. Taka þau við af Þórdísi Helgadóttur sem var leikskáld Borgarleikhússins á síðasta leikári.

Nú hafa átta leikskáld starfað við leikhúsið undir verndarvæng Leikritunarsjóðs og hafa þau hingað til starfað eitt ár í senn. Í ár er sú nýbreytni að hússkáldin eru tvö og er það mikið gleðiefni að geta haft tvö leikskáld starfandi við húsið og skapa þannig samtal ólíkra radda. Eitt megin markmið Leikritunarsjóðs er að stuðla að auknum áhuga ungs fólks á leikritunarforminu og kynna verðandi leikskáldum lögmál leiksviðsins, en einnig að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun.

Eva Rún er sjálfstætt starfandi sviðslistakona og rithöfundur, en hún útskrifaðist með B.A. gráðu frá Listaháskóla Íslands, Sviðshöfundabraut vorið 2008. Eva Rún er ein af stofnendum og listrænum stjórnendum Framandverkaflokksins Kviss búmm bang og Sviðslistahópsins 16 elskenda, einnig hefur hún gefið út þrjár ljóðabækur svo eitthvað sé nefnt!

Matthías Tryggvi útskrifaðist einnig með B.A. sem sviðshöfundur frá LHÍ 2018. Hann hefur heldur betur ekki setið auðum höndum síðan, var t.d. valinn sproti ársins á Grímuverðlaununum 2019 fyrir sýninguna Griðarstaður og var það verk svo aftur tilnefnt sem leikrit ársins á sömu verðlaunum. Einnig er hann meðlimur hljómsveitarinnar HATARI.

Borgarleikhúsið býður þau hjartanlega velkomin! 

Á mynd eru Matthías Tryggvi Haraldsson, Eva Rún Snorradóttir, Halla Björg Randversdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Hafliði Arngrímsson og Brynhildur Guðjónsdóttir.