Borgarleikhúsið

Nýtt leikskáld Borgarleikhússins

11 jan. 2022

Birnir Jón Sigurðsson hefur verið valinn leikskáld Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur 2022–2023.


Birnir var valinn úr hópi 25 umsækjenda og tekur við keflinu af þeim Matthíasi Tryggva Haraldssyni og Evu Rún Snorradóttur, en verk þeirra beggja verða hluti af verkefnaskrá Borgarleikhússins á næsta leikári.

Birnir Jón er tíunda skáldið sem starfar við leikhúsið undir verndarvæng Leikritunarsjóðsins sem leikskáld Borgarleikhússins og fetar hann þar í fótspor þeirra Auðar Jónsdóttur, Jóns Gnarr, Kristínar Marju Baldursdóttur, Tyrfings Tyrfingssonar, Sölku Guðmundsdóttur, Björns Leó Brynjarssonar, Þórdísar Helgadóttur auk þeirra Matthíasar Tryggva og Evu Rúnar.

Leikskáld Borgarleikhússins fær aðstöðu í leikhúsinu, vinnur þar á samningstímanum og er hluti af starfsliði Borgarleikhússins. Kappkostað er að veita leikskáldinu aðgang að allri starfsemi Borgarleikhússins og að það njóti aðstoðar, leiðsagnar og stuðnings leikhússtjóra, leiklistarráðunauta og annars starfsfólks leikhússins. Auk þess á skáldið kost á samræðum við leikara, leikstjóra og leikmyndahöfunda og að sitja æfingar á verkefnum Borgarleikhússins.

Birnir Jón Sigurðsson útskrifaðist af sviðshöfundabraut sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands vorið 2019. Hann er starfandi meðlimur sviðslistahópanna Ást og Karókí og CGFC, en báðir hópar hafa sýnt verk undir hatti Umbúðalaust í Borgarleikhúsinu; Ást og Karókí sýndu verkið Skattsvik Development Group og CGFC sýninguna Kartöflur, sem tilnefnt var sem leikrit ársins á Grímunni 2020. Birnir skrifaði texta barnaóperunnar Fuglabjargið sem sett var upp á litla sviði Borgarleikhússins í samstarfi við sviðslistahópinn Hin fræga önd í janúar 2021. Birnir er einn stofnenda sviðslistarýmisins Tóma rýmið, sem er vettvangur grasrótar í sviðslistum á Íslandi og vinnur markvisst að framþróun nýrra sviðsverka.

Markmið Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista. Formaður stjórnar Leikritunarsjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur. Aðrir í stjórn eru Brynjólfur Bjarnason og Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri, en verkefnavalsnefnd Borgarleikhússins er stjórn sjóðsins til ráðgjafar.