Borgarleikhúsið

Leiklistarskóli Borgarleikhússins opnar fyrir umsóknir skólaárið 2020 - 2021

22 maí 2020

Borgarleikhúsið býður upp á einstakt leiklistarnám á landsvísu fyrir börn á aldrinum 10-16 ára. Námið er spennandi valkostur fyrir krakka sem hafa brennandi áhuga á leiklist.

Það gleður okkur að tilkynna að opnað hefur verið fyrir umsóknir í Leiklistarskóla Borgarleikhússins fyrir skólaárið 2020 - 2021.
Námið er byggt upp á þremur námsstigum sem taka eitt ár í senn. Kennt er tvisvar í viku tvo tíma í senn. Við lok 3. stigs útskrifast nemendur sem ungleikarar með viðurkenningu frá Borgarleikhúsinu. Útskriftarnemar taka þátt í metnaðarfullri sýningu sem sýnd er á sviði í Borgarleikhúsinu, þar fá nemendur að kynnast því hvernig er að vinna í atvinnuleikhúsi með ljósum, hljóðum, búningum, sviðsmynd og leikmunum.
Vegna mikillar eftirspurnar stendur til að fjölga nemendum fyrir veturinn 2020-2021 og er ánægjulegt að tilkynna að í haust verður boðið upp á inntökupróf fyrir tvo nýja hópa. Í skólanum verða því um 70 nemendur á næsta leikári. Öllum börnum sem fædd eru á árunum 2007-2010 er velkomið að spreyta sig. 

Við hlökkum til að taka á móti nýjum nemendum og vonumst til að sjá ykkur sem flest í inntökuprófunum!

Opnað hefur verið fyrir skráningar í inntökuprófin og skráning fer fram hér.

Frekari upplýsingar um leiklistarskólann er hægt að fá með því að senda póst á leiklistarskoli@borgarleikhus.is