Borgarleikhúsið

Pétur ráðinn dramatúrg

3 jan. 2020

Pétur Ármannsson hefur verið ráðinn dramatúrg í listrænuteymi Borgarleikhússins. Hann hefur störf þann 8. febrúar og mun jafnframt leikstýra einni sýningu á næsta leikári, 2020-2021. ,,Mér finnst þetta spennandi áskorun fyrir mig sem listamenn og ætla að reyna að takast á við hana af alúð,” segir Pétur Ármannsson um nýja starfið.

,,Í minni listsköpun hef ég verið mjög upptekinn af dramatúrgíu og hef auk þess mikinn áhuga á öllum hlutum leikhússins. Ég hef reynslu af því að vinna í mismunandi kimum listformsins, m.a. í dansi og gjörningaleikhúsi, þannig að mér finnst spennandi að koma með þá þekkingu inn í Borgarleikhúsið.”

Pétur útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands 2012 og sótti starfsnám í leikstjórn hjá samtímaleikhúsinu Schaubühne í Berlín árið 2013. Hann rekur sviðslistahópinn Dance For Me ásamt eiginkonu sinni Brogan Davison og hlutu þau m.a. menningarverðlaun DV 2013 fyrir sýninguna Dansaðu fyrir mig. Þau hafa sýnt verk sín víðsvegar um heim en Pétur hefur einnig unnið sem leikstjóri fyrir Íslenska dansflokkinn og Borgarleikhúsið og var tilnefndur sem leikstjóri ársins 2019 fyrir sýninguna Club Romantica, en verkið hlaut Grímuna sem leikrit ársins.