Ríkharður III fékk flestar Grímutilnefningar

5 jún. 2019

Sýningin Ríkharður III, sem frumsýnd var á Stóra sviði Borgarleikhússins í desember, fékk flestar Grímutilnefningar fyrir leikárið 2018-2019, alls átta talsins, en tilkynnt var um tilnefningarnar í dag. Alls fengu átta sýningar Borgarleikhússins samtals 30 tilnefningar og leikhúsið því með flestar tilnefningar.

,,Við erum í skýjunum, það endurspeglar sterka stöðu Borgarleikhússins að við skulum fá 30 tilnefningar og auk þess að Ríkharður III hljóti flestar tilnefningar þetta leikárið,” segir Kristín Eysteinsdóttir, Borgarleikhússtjóri.

Ríkharður III fékk tilnefningu sem sýning ársins, Brynhildur Guðjónsdóttir sem leikstjóri ársins, Edda Björg Eyjólfsdóttir sem leikkona ársins í aðalhlutverki, Hjörtur Jóhann Jónsson sem leikari ársins í aðalhlutverki, Ilmur Stefánsdóttir fyrir leikmynd ársins, Filippía Elísdóttir fyrir búninga ársins, Björn Bergsteinn Guðmundsson fyrir lýsingu ársins og þeir Baldvin Magnússon og Daníel Bjarnason fyrir hljóðmynd ársins.

Söngleikurinn Matthildur fékk fimm tilnefningar. Vala Kristín Eiríksdóttir og Ebba Katrín Finnsdóttir voru tilnefndar sem leikkona ársins í aukahlutverki, Ilmur Stefánsdóttir fyrir leikmynd ársins, Þórður Orri Pétursson fyrir Lýsingu ársins og Lee Proud fyrir dans og sviðshreyfingar ársins.

Sýningin Bæng! Fékk einnig fimm tilnefningar. Gréta Kristín Ómarsdóttir fékk tilnefningu sem leikstjóri ársins, Björn Thors sem leikari ársins í aðalhlutverki, Brynhildur Guðjónsdóttir sem leikkona ársins í aukahlutverki, Halldór Gylfason sem leikari ársins í aukahlutverki og Eva Signý Berger fyrir búninga ársins.

Samstarfsverkefnið Club Romantica var tilnefnt til fernra verðlauna. Hún var tilnefnd sem sýning ársins, Pétur Ármannsson sem leikstjóri ársins, Snorri Helgason fyrir tónlist ársins og hún fékk einnig tilnefningu sem leikrit ársins.

Allt sem er frábært var tilnefnd til þrennra verðlauna. Sýningin var tilnefnd sýning ársins, Ólafur Egill Egilsson sem leikstjóri ársins og Valur Freyr Einarsson sem leikari ársins í aðalhlutverki.

Dúkkuheimili, annar hluti og Kæra Jelena fengu tvær tilnefningar hvor. Fyrir Dúkkuheimili, annar hluti fékk Unnur Ösp Stefánsdóttir tilnefningu sem leikkona ársins í aðalhlutverki og Sveinbjörg Þórhallsdóttir fyrir dans og sviðshreyfingar. Fyrir Kæru Jelenu fékk Halldóra Geirharðsdóttir tilnefningu sem leikkona ársins í aðalhlutverki og Sigurður Þór Óskarsson sem leikari ársins í aukahlutverki.

Með gat í hjartanu í laginu eins og Guð fékk tilnefningu sem útvarpsverk ársins en það var samstarfsverkefni Útvarpsleikhússins og Borgarleikhússins.

Grímuverðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 12. júní.