Ríkharður III sigurvegari Grímuverðlaunanna

13 jún. 2019

Sýningin Ríkharður III, sem sýnd var á Stóra sviði Borgarleikhússins í vetur, fékk sex Grímuverðlaun og var sigurvegari hátíðarinnar þegar verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í gærkvöldi. Sýningar Borgarleikússins fengu alls níu verðlaun, en söngleikurinn Matthildur og leikritið Club Romantica fengu einnig verðlaun.

Ríkharður III var sýning ársins, Brynhildur Guðjónsdóttir var leikstjóri ársins, Hjörtur Jóhann Jónsson leikari ársins í aðalhlutverki, Ilmur Stefánsdóttir fékk verðlaun fyrir leikmynd ársins, Filippía I. Elísdóttir fyrir búninga ársins og Björn Bergsteinn Guðmundsson fyrir lýsingu ársins.


Söngleikurinn Matthildur fékk tvenn Grímuverðlaun. Vala Kristín Eiríksdóttir var leikkona ársins í aukahlutverki og Lee Proud fékk verðlaun fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins.


Þá fékk Club Romantica verðlaun sem leikrit ársins.

Starfsfólk Borgarleikhússins óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju.