Borgarleikhúsið

Undirskrift og konfettí í Kattholti

19 jan. 2022

Í liðinni viku fagnaði Leikfélag Reykjavíkur 125 árum og í afmælisvikunni undirrituðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

 og Eggert Benedikt Guðmundsson, stjórnarformaður Leikfélags Reykjavíkur ásamt Brynhildi Guðjónsdóttur leikhússtjóra Borgarleikhússins, viðauka við gildandi samning Reykjavíkurborgar um rekstur Borgarleikhússins. Viðaukinn gildir frá janúar 2022 til 31. desember 2024 og mun taka breytingum í skrefum til næstu þriggja ára.

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg. Markmið samningsins er að í Reykjavík sé rekið metnaðarfullt leikhús þar sem borgarbúum gefst tækifæri til að njóta fjölbreyttra sviðslista í hæsta gæðaflokki. Borgarleikhúsið er lifandi vettvangur nýsköpunar og kynningar á íslenskri leiklist þar sem erlendri klassík og samtímaleiklist eru einnig gerð góð skil og tryggð er samfella og framþróun í öflugu leiklistarstarfi. Rík áhersla er lögð á listuppeldi barna og ungmenna í Borgarleikhúsinu en auk sýninga sem sérstaklega höfða til þeirra er starfræktur metnaðarfullur leiklistarskóli við húsið.

Í ljósi efnahagslegrar stöðu og afleiðinga í kjölfar kórónuveirufaraldursins, innanlands og á heimsvísu, hefur Reykjavíkurborg gert kröfu um hagræðingu hjá stofnunum borgarinnar á meðan komist verður í gegnum þær fjárhagslegu þrengingar sem hafa reynst þungar fyrir rekstur borgarinnar. Í forsendum fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2022 er gerð er krafa um allt að 1% hagræðingu launakostnaðar eftir að tekið hefur verið tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana og engar verðbætur eru á annan rekstrarkostnað utan samningsbundinna skuldbindinga. Breytingar í samningi þessum taka mið af því að styrktarsamningar við þriðja aðila taki sambærilegri hagræðingu og gerð er til stofnana borgarinnar. Samkvæmt samningnum verða engar breytingar gerðar á árinu 2022 frá fyrra samkomulagi. Að þeim tíma liðnum, eða frá janúar 2023, verður 50% af rekstrarframlaginu áfram bundið við launavísitölu en engar verðbætur munu reiknast á það sem eftir stendur af rekstrarframlaginu, eða 50%.

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri segir: „Borgarleikhúsið er kröftug menningarmiðja í ört stækkandi borg. Með framlagi sínu tryggir Reykjavíkurborg rekstrargrundvöll Borgarleikhússins, sem á síðustu árum hefur sýnt það og sannað að það er fyrsta flokks sviðslistastofnun sem laðar til sín fjölda áhorfenda á víðum aldri og með fjölbreyttan bakgrunn. Það er okkur dýrmætt að Reykjavíkurborg skuli líta á leikhúsið sitt sem öflugan og mikilvægan þátt í menningarlífi borgarbúa. Fyrir stuðning og meðbyr erum við þakklát og við hlökkum til að gera enn betur í framtíðinni. Takk, Reykjavík!“.