Borgarleikhúsið

  • Sölumaður deyr minningarorð

Sigurjón Jóhannsson, minningarorð

21 feb. 2023

Sigurjón Jóhannsson, leikmynda- og búninghönnuður, verður borinn til grafar í dag, en hann lést 8. febrúar síðastliðinn.

Sigurjón fæddist á Siglufirði þann 21. maí 1939 og nam myndlist á Íslandi og á Ítalíu og síðar leikmynda- og búningahönnun í Kaupmannahöfn. Hann var mikilsverður myndlistarmaður og einn stofnenda myndlistarhópsins SÚM, en hóf feril sinn sem leikmynda- og búningahönnuður með leikhópnum Grímu um miðjan sjöunda áratuginn. Fyrsta verkefni Sigurjóns hjá Leikfélagi Reykjavíkur var verkið Svört kómedía eftir Peter Shaffer árið 1973, en fljótlega var hann ráðinn yfirleikmyndahönnuður Þjóðleikhússins, sem hann sinnti fram til 1988. Að því loknu vann Sigurjón við hátt í 20 sýningar hjá Leikfélagi Reykjavíkur og má meðal þeirra nefna Síldin er komin (1988), Dúfnaveislan (1991), Mávahlátur (1998) og Sölumaður deyr (2002), en fyrir þá síðastnefndu hlaut Sigurjón Grímuverðlaunin fyrir leikmynd ársins. Sigurjón hlaut heiðursverðlaun Grímunnar árið 2012.

Starfsfólk Borgarleikhússins sendir aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þessa merka listamanns.

Ljósmynd: Pétur Einarsson og Hanna María Karlsdóttir í Sölumaður deyr (2002). Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir. Ljósmyndari: Sigfús Már Pétursson.